Jæja, þá kemur langþráð fyrsta færsla frá okkur hér í Vindáshlíð. Tæknin var ekki alveg með okkur í liði og þess vegna varð bið á þessu hjá okkur.
Flokkurinn fór aldeilis vel af stað þegar 76 hressar og kátar stelpur mættu til leiks. Ratleikur og leikir voru í fyrirrúmi fyrsta daginn og brennókeppnin fór að sjálfsögðu strax í gang auk þess sem dömurnar tóku vel til matar síns. Eftir kvöldhugleiðingu fengu stelpurnar að bursta tennurnar í læknum og það vekur alltaf lukku enda svo miklu betra að bursta þar 🙂
Bænakonurnar fóru svo inn á herbergin, lásu sögu fyrir stelpurnar og fóru með bænir. Heimþráin gerir ævinlega vart við sig þegar líður á kvöldið en allar sofnuðu stelpurnar fyrir rest og sváfu vel.
Gærdagurinn hófst á morgunmat og fánahyllingu og svo kynntumst við aðeins Biblíunni. Við ræddum líka hvernig við getum sýnt hver annarri virðingu og skapað gott andrúmsloft. Stelpurnar voru nú alveg með það á hreinu og nefndu sem dæmi að vera góðar, kurteisar og hjálpsamar. Söngurinn var líka á sínum stað og hér er samankominn hinn besti kór. Brennókeppnin hélt svo áfram, föndurstofan var opin, íþróttakeppnir í gangi þar sem keppst var um breiðasta brosið, stigahlaup, minniskeppni og fleira skemmtilegt. Eftir hádegismatinn sem voru pítur fóru stelpurnar í gönguferð í réttirnar. Þar fóru þær í leiki. Rigningin fylgdi þeim og það voru því blautar og þreyttar stelpur sem komu til baka en umfram allt kátar. Grjónagrauturinn sívinsæli var á borðum í gærkvöldi og að honum loknum tók við kvöldvaka þar sem u.þ.b. helmingur stelpnanna bauð upp á fjölbreytt gæðaatriði. Eftir hugleiðingu þar sem talað var um að það sem við tökum inn í hjörtun okkar kemur þaðan líka fóru stelpurnar að gera sig klárar í svefninn. Þær voru þó truflaðar í miðju kafi af foringjunum sem buðu í geggjað náttfatapartý. Það vakti heldur betur lukku enda í boði að dansa uppi á borðum og ég veit ekki hvað og hvað. Foringjarnir fóru svo á kostum í leikrænum tilburðum og skemmtu stelpunum með söng og leikatriðum. Af þessum sökum fórum við frekar seint í rúmið en þær voru nú ekki lengi að sofna þessar elskur.
Dagurinn í dag hófst svo að venju á morgunmat og fánahyllingu og að henni lokinni héldum við áfram að tala um það hvernig við getum komið vel fram við fólkið í kringum okkur. Stelpurnar komu með margar frábærar hugmyndir varðandi það og niðurstaðan var sú að ef við erum glaðar, sýnum samkennd, hjálpum öðrum og leyfum öllum að vera eins og þeir eru þá gengur allt betur. Stelpurnar fengu svo allar litlar spýtur þar sem búið var að skrifa á nafn einhverrar úr flokknum og áttu að skrifa einhver hvatningarorð til viðkomandi. Þetta féll í kramið og á morgun munu stelpurnar svo fá sínar spýtur í hendurnar. Ég læt hér fylgja með mynd af nokkrum þeirra.
Eftir hádegismatinn kepptu herbergin í Vindáshlíð Top Model en það er keppni á
milli herbergja um að búa til flottasta „outfittið“. Þá er ein úr hverju herbergi „model“ og hinar búa til einhvers konar klæði úr ruslapokum. Þetta varð hin skemmtilegasta stund sem endaði að sjálfsögðu með tískusýningu.
Myndir úr flokknum má sjá hér https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720319073284/with/53877050800
Bestu kveðjur
Álfheiður forstöðukona