„Það er svo gaman hérna, verðum við að fara heim?“
„Ef við felum okkur og þið finnið okkur ekki þá getum við verið líka í næsta flokki!“
„Það væri gaman ef það hefði ekki alltaf verið rigning en það er samt bara öðruvísi gaman og veðrið skiptir eiginlega engu máli.“

Þetta og fleira í þessum dúr höfum við heyrt í morgun og það hlýtur að þýða að stelpurnar séu glaðar og ánægðar með dvölina.

Lúsmýið hefur látið svolítið á sér kræla þessa daga og eru einhverjar stelpnanna vel bitnar. Við hlúum að þeim með after bite og kremi og fullvissum þær um að þetta líði hjá.

Gærdagurinn sem jafnframt var síðasti heili dagurinn okkar, var svokallaður veisludagur. Í biblíulestri var áherslan áfram á það hvernig við getum verið besta útgáfan af okkur sjálfum, við rifjuðum upp söguna af miskunnsama Samverjanum og svo gerðum við verkefni sem aldeilis vakti lukku. Allar stelpurnar fengu pappadisk á bakið og svo gengum við um og skrifuðum jákvæð orð hver um aðra. Það var svo gaman að sjá hvað stelpurnar voru glaðar og tilbúnar í þetta, þær kepptust um að skrifa hver hjá annarri og allar uppskáru þær falleg og hvetjandi orð á diskana sína.

Eftir þessa skemmtilegu stund var komið að úrslitunum í brennókeppninni og að þessu sinni voru það Barmahlíðarstúlkur sem báru sigur úr býtum. Þær fá því að keppa við foringjana í dag og leiðist það ekki.

Eftir hádegi skiptum við stelpunum í nokkra hópa sem allir undirbjuggu ákveðin hluta guðsþjónustunnar sem við héldum svo í fallegu kirkjunni okkar fyrir kvöldmatinn. Sumar völdu söngva og æfðu, aðrar skreyttu kirkjuna, enn aðrar bjuggu til bænir sem þær lásu upp og svo má ekki gleyma þeim sem sýndu leikrit.

Í kvöldmat fengum við pizzur og djús og að honum loknum voru afhentar viðurkenningar fyrir íþróttakeppnir, brennó, snyrtilegasta herbergið og fleira skemmtilegt.

Foringjar skemmtu stelpunum á síðustu kvöldvökunni og það má eiginlega segja að hlátrasköllin og fagnaðarlætin sem ómuðu um kvöldvökusalinn hafi sagt allt sem segja þarf um þá stund.

Þar sem við fórum frekar seint í rúmið þá vöknuðum við líka aðeins seinna í morgun en venjan er. Eftir morgunmatinn héldum við upp í kirkju og áttum saman síðustu stundina okkar þar. í þessum skrifuðu orðum er svo brennóleikurinn fyrrnefndi og að sjálfsögðu styðjum við Barmahlíð í baráttunni 🙂

Rútan leggur af stað úr Vindáshlíð kl. 14 og við verðum þá komnar á Holtaveginn í kringum 14:45. Hlökkum til að sjá ykkur á eftir.

Bestu kveðjur úr Hlíðinni fríðu,
Álfheiður forstöðukona