Hér í 10.flokki Vindáshlíðar er búið að vera mikið fjör og biðst ég afsökunar á hversu seint fyrsta færslan dettur inn.

Hér hefur hópurinn notið þess að vera frá því á laugardaginn og skrítið að hugsa til þess að veisludagur renni nú senn upp. Tíminn líður svo sannarlega hratt þegar maður skemmtir sér vel.

Ævintýrin hafa verið fjölmörg frá komu. Að sjálfsögðu höldum við fast í okkar vanalegu dagsrárliði, svo sem brennóið, biblíulesturinn, hugleiðinguna og íþróttakeppnirnar. Föndurherbergið hefur einnig verið vel nýtt og að sjálfsögðu ófá vinabönd hnýtt. Dagskráin hefur svo verið uppfull af fjöri. Á fyrsta degi var farið í Amazing Race ratleikinn okkar auk þess sem öll herbergi þurftu að finna sína bænakonu um kvöldið, með spurningarleik. Á degi tvö var Harry Potter þema og stelpurnar fengu að kynnast ævintýrahúsinu í Vndáshlíð. Í gær var haldið í hina klassísku Vindáshlíðar-göngu að Pokafossi og Brúðarslæðu í útiveru, og spurningarkeppnin Éttu Pétur var háð um kvöldið. Í dag slóum við þessu svo upp í kæruleysi og vöktum liðið með náttfatapartýi. Myglaðar og óburstaðar stúlkurnar voru mishressar með það framtak og áttu misauðvelt með að gíra sig í gang. Það sem þær vissu þó ekki var að morgunpartýið var aðeins upphitun fyrir hitt raunverulega náttfatapartý sem beið þeirra nú í lok dags. Í dag var líka slegið upp High School Musical þema og hinir ýmsu persónur úr þeim gæða-myndum sem hafa sést hér á göngunum í dag (í túlkun foringja Vindáshlíðar). Þá var farið í eltingaleik í útiveru og hlaupið niður að hliði nú fyrr í kvöld. Það eru því þreyttar Hlíðarmeyjar sem lögðu höfuð á kodda núna rétt áðan – en þess má til gamans geta að í dag er flokkurinn einmitt búinn að gista í Vindáshlíð í þrjár nætur svo þær stúlkur sem voru að koma hingað í sinn fyrsta flokk hlutu titilinn „Hlíðarmeyja“ í dag, og því allar stúlkurnar í húsinu með þann titil núna. Sérstaklega var haldið uppá það í dag með heimsókn frá einni þaulreyndri Hlíðarmeyju, sem hefur borið þann titil í yfir 50 ár, sem kenndi okkur nokkra vel valda Hlíðarsöngva í morgunstundinni.

Veðrið hefur alls ekki leikið við okkur, en kosturinn við rigninguna og rokið er að þá heldur lúsmýið sig fjarri. Það kom þó logn seinni partinn í gær og náði mýið þá að gæða sér á okkur nokkrum. Það var því ágætis léttir þegar rokið kom aftur nú í kvöld.

Á morgun bíður okkar veisludagur þar sem búast má við þéttri veislu-dagskrá til að kveðja Hlíðina okkar fríðu, áður en við höldum heim á fimmtudag.

Að lokum minni ég á að hægt er að skoða myndir úr flokknum hér.


Kveðja,
Tinna Rós – forstöðukona.