Heil og sæl kæru foreldrar/forráðamenn
hér í Kjósinni gengur allt vel og sólin skín skært. Við byrjuðum í gær á að raða ofsalega spenntum og skemmtilegum 80 stelpum niður í herbergi og fórum yfir helstu reglur. Í kaffinu var ylvolg jógúrtkaka og ávextir. Strax eftir kaffið var haldið í brennó, íþróttir, föndur, leiki og almennt stuð. Í kvöldmat var svo grjónó og lifrapylsa sem rann vel og hratt ofan í liðið.
Eftir kvöldmat nýttum við góða veðrið og fórum í ratleik um svæðið og svo leiki. Á hugleiðingu ræddum við um tilfinningar okkar, kvíða og hvernig er best að tækla hann ef hann kemur yfir okkur þegar við erum að fara að sofa. Stelpurnar hlustuðu vel og voru spenntar að fá að fara út í læk að bursta tennur fyrir nóttina, en það er oft í boði ef veður er gott.
Bænakonur komu inn á herbergin til að ræða um daginn og lífið, kynnast stelpunum betur og koma þeim í ró fyrir nóttina. Það tók sumar aðeins lengri tíma að sofna en aðrar en þær eru í góðum höndum hér og fengu helling af knúsum og peppum. Á endanum sofnuðu allar en sváfu þó mis lengi og voru fyrstu komanar á ról frekar snemma. En allar vöknuðu glaðar og jákvæðar fyrir komandi degi. Sólin gerir allt betra og munum við nýta daginn vel úti og stefnum á busl og sull á Brúðarslæðu eftir hádegismat. Á biblíulestri í dag ræddum við um þakklæti og hvað við getum þakkað fyrir, hvert við getum leitað þegar okkur líður illa og sungum helling af skemmtilegum lögum. Áskorun dagsins var og er að kynnast tveimur nýjum stelpum í flokknum.
Við erum að dæla inn myndum og bætist í jafnt og þétt… endilega fylgist með okkur 🙂
Kærleikskveðjur úr Hlíðinni fríðu,
Hanna Lára forstöðukona og frábæru foringjarnir