Sæl, í dag vöknuðu stelpurnar eins og venjulega við tónlist enn við vildum ekki láta þær vita af hvaða þema væri í gangi fyrr enn í hádeginu. Þær fengu sér morgunmat og svo var komið að brennói, íþróttum, vinaböndum og föndri. Í hádegismatnum var svo tilkynnt hvaða þema væri í gangi í dag með því að foringjarnir hlupu inn í búningum persóna úr Latabæ. Í matinn var pastasalat þar sem stelpurnar gátu valið sér sjálfar hvað þær settu ofaní. Næst tók við fánahylling og biblíulestur. Í biblíulestri ákvað ég að ítreka það sem Frú Halla T. sagði við stelpurnar í gær, hún sagði að konur fá oftast hrós sem einblýna á útlit eða klæðnað. Við límdum allar blað á bakið á okkur og gengum á milli, spjölluðum og skrifuðum svo hrós til hvor annarrar. Þegar við kláruðum biblíulestur var komið að útiveru, í dag var skipulögð kökukeppni þar sem hvert herbergi fékk óskreytta köku og fengu það verkefni að skreyta hana í anda Latabæjar. Allar kökurnar voru ótrúlega vel gerðar og var valið á milli þeirra erfitt. Þegar foringjarnir voru búnir að velja sigurvegara fengu stelpurnar svo að borða kökurnar sem þær skreyttu. Næst tók við brennó, Íþróttir, föndur og vinabönd. Í kvöldmatinn hafði eldhúsið grillað hamborgara handa stelpunum og fengu þær franskar með. Við fengum góða heimsókn í kvöld frá KSS þar sem krakkarnir í stjórninni þar kynntu starfið fyrir stelpunum og voru svo með í kvöldvökunni. Í kvöld var komið að leiknum sem margar bíða spenntar eftir Flóttinn. Í leiknum þurfa stelpurnar að komast að endastöð með því að finna vísbendingar enn á sama tíma passa sig að foringjar nái þeim ekki. Næst tók við kvöldkaffi og hugleiðing, í kvöld talaði Freyja foringi um hvað það sé mannlegt að gera mistök ef að við lærum af þeim. Stelpurnar fóru svo að hátta og gera sig til í bænó enn foringjarnir voru með allt annað plan. Þegar að bænó átti að byrja hlupu foringjarnir inná gang syngjadi „hæ hó jibbý jei og jibbý jei það er komið náttfatapartý“ og þá byrjaði rosalegt partý. Við dönsuðum inní matsal ofan á borðum á gólfinu, fórum svo inn í setustofu þar sem gamanið hélt áfram. Foringjarnir voru með stutt atriði og fór Gulla okkar á kostum með úle sögu á ensku. Loka atriði kvöldsins var svo Djúpa laugin þar sem Freydís, Svanhildur, Thelma, Valgerður og Þurý fóru á kostum. Enduðum svo daginn eins og hvern annann dag með bænaherbergjum þar sem stelpurnar ásamt sínum bænakonum eyddu gæðastund saman.

 

Þetta er frábær hópur sem við höfum hérna hjá okkur og erum við allar að njóta okkar í botn

Kær Hlíðarkveðja

Andrea Anna Forstöðukona