Í gær var heldur betur skemmtilegur dagur hjá okkur, enda var veisludagur. En á seinasta degi í hverjum dvalarflokki í Vindáshlíð er veisludagur og veislukvöld sem er heldur betur skemmtilegt. Í hádegismatinn fengu stelpurnar grjónagraut og slátur sem að sjálfsögðu sló rækilega í gegn. Eftir hádegismat var komið að smá útiveru en að þessu sinni var farið í göngu að Brúðarslæðu sem er lækur hér í nágrenni Vindáshlíðar. Þar fengu stelpurnar að vaða, busla og njóta saman í náttúrunni.

Þegar að heim var komið í Hlíðina fengu stelpurnar súkkulaði köku og kanillengjur í kaffitímanum. Eftir kaffið var komið að hinum sí vinsæla og skemmtilega vinagangi. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á hárgreiðslu, nudd og bangsapössun en svo var allskonar annað líka í boði. Um klukkan sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem fram undan var.

Við byrjuðum veislukvöldið á því að fara allar saman upp í Hallgrímskirkju hér í Vindáshlíð þar sem haldin var stutt messa. Við sungum saman lög og svo heyrðum við söguna af Miskunnsama Samverjanum. Það er saga sem að Jesú sagði lærisveinum sínum um að vera góð hvort við annað sama hver náunginn er eða hver bakgrunnur hans er. Það er svo mikilvægt að vera góð hvort við annað og með kærleikann að leiðarljósi því þá líður okkur öllum svo miklu betur.

Þegar að við vorum búnar í kirkjunni sungum við fánan niður og fórum í vefa mjúka sem er gömul og skemmtileg hefð hér í Vindáshlíð. Í veislukvöldmatinn var svo boðið upp á pizzur og djús og það var sko heldur betur borðað vel af því. Næst tók við hin sívinsæla veislukvöldvaka en að þessu sinni buðum við upp á hæfileikasýningu þar sem allar þær stelpur sem vildu sýndu listir sínar gerðu svo. Foringjar stigu svo líka á stokk og voru með nokkur leikrit.

Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi og hugleiðingu en þar var boðið upp á ís á meðan hlustað var á söguna Þú ert frábær sem minnir okkur á það að við erum öll frábær eins og við erum, við erum öll ólík með ólíka hæfileika. Ekkert okkar er eins en við erum öll dýrmæt sköpun Guðs.

Stelpurnar fengu að lokum að bursta tennurnar í læknum en það er enn ein gömul og góð hefð. Þær sem vildu héldu út í læk en svo var auðvitað líka í boði að bursta tennurnar inni á baði. Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínu herbergi og það voru því vel þreyttar en glaðar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðaríkan dag.

Í morgun vöknuðu stelpurnar og fengu morgunmat en að þessu sinni var boðið upp á að fá coco puffs fyrir þær sem vildu en cherriosið og kornflexið var að sjálfsögðu líka á sínum stað ásamt hafragrautnum fyrir þær sem vildu. Að morgunmat loknum fórum við saman upp í kirkju í smá kveðjustund þar sem að við heyrðum söguna um hvernig Vindáshlíð varð til og sungum allar saman. Að kveðjustund lokinni fórum við í Hlíðar Bingó þar sem hægt var að vinna allskonar skemmtilega Vindáshlíðar vinninga. Nú eru stelpurnar farnar í íþróttahúsið í nokkra leiki með foringjunum og fara svo í pulsu partý upp í matsal þar sem að viðurkenningar fyrir hinar ýmsu þrautir og keppnir verða veittar, eins og t.d. fyrir íþróttakeppnir, ratleikinn og fleira.

Rútan fer svo frá Vindáshlíð kl. 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 14:40. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endilega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig í síma 566-7044.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum á eftirfarandi slóð: Myndir

Við í Vindáshlíð erum ekkert smá þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum yndislegu stelpum hér í Stubbaflokki og hefðum sko heldur betur verið til í að hafa þær lengur hjá okkur. Vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.

Sjáumst á Holtavegi á eftir.

Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona