Á meðan dvalarstúlkurnar okkar 82 og meirihluti stafsfólksins heldur til við fossinn Brúðarslæðu hér stutt frá þá situr þessi forstöðukona og nýtur veðurblíðunar og kyrrðarinnar í Hlíðinni.
Við vorum svo sannarlega blessaðar með veðursæld hér í Vindáshlíð í dag og auðvitað nýtum við veðrið hvað best við getum. Stúlkurnar héldu því í gönguferð nú eftir hádegismat, með bakpoka fulla af nesti, sólarvörn og flugnafælum. Á meðan sitjum við nokkrar eftir og sinnum hinum ýmsu verkefnum, til að mynda að undirbúa veislukvöldið okkar í kvöld.
Dagurinn hefur verið viðburðarríkur en eftir morgunstundina þar sem við fjölluðum um bænina og fórum yfir merkingu Faðir vorsins þá voru spilaðir úrslitaleikir í brennókeppninni okkar. Eins lengi og elstu menn muna hefur brennóleikurinn verið mikilvægur hluti af dvölinni í Vindáshlið, og í hverjum flokki háð keppni á mili herbergja þar sem á veisludegi eitt herbergið stendur uppi sem brennómeistari. Í þetta sinnið voru það stelpurnar í Viðihlíð sem hömpuðu titlinum. Í fyrramálið þurfa þær því að takast á við sitt stærsta brennóverkefni hingað til – leik gegn foringjunum.
Gærdagurinn var einnig gríðar góður, í raun svo góður að meira að segja lusmýið gat ekki haldið sig fjarri partýinu lengur og mætti til að taka þátt í gleðinni. Á morgunstundinni ræddum við um fyrirgefninguna, haldnar voru íþróttakeppnir i stígvélasparki og hraðakeppni í fataklæðslu. Margar stelpur heimsóttu föndurherbergið okkar og að sjálfsögðu spiluðu allir brennó. Í útiverunni var haldið Hlíðarhlaup þar sem stelpurnar kepptu í hlaupi niður að hliði. Þaðan var farið yfir í réttirnar hinum megin við götuna þar sem farið var í réttarleik og stúlkurnar dregnar í dilka eftir lit á yfirhöfnum og fleiru skemmtilegu. Kvöldvaka var með hefðbundnu sniði og síðustu herbergin kláruðu að vera með atriði í gær, en foringjarnir sjá um kvöldvökuna í kvöld. Eftir að kvöldkaffi og hugleiðingu lauk komum við stúlkunum svo á óvart með náttfatapartýi og var hér dansað, sungið og sprellað fram eftir kvöldi. Það voru þreyttar og sælar stúlkur sem lögðust á koddana í gær, og sofnuðu á mettíma.
Það má að minnsta kosti gera ráð fyrir að úr rútunum á morgun komi stelpur með heilan helling af sögum um dvölina sína hér. Vonandi allar jákvæðar og gleðilegar!
Við hlökkum til að sjá ykkur á morgun, laugardag, en gert er ráð fyrir að rúturnar lendi á Holtavegi 28 um klukkan 14:45.
Kær kveðja,
Tinna Rós, forstöðukona.