Í dag komu 78 spenntar stelpur í Hlíðina fríðu í fyrsta ævintýraflokk sumarsins. Við komu fóru þær allar beint inn í matsal þar sem við fórum yfir reglur og plan dagsins. Í kaffinu var boðið uppá dúnmjúka & volga pizzusnúða og gulrótaköku með rjómaostakremi ásamt djús, þetta rann ljúft niður hjá flestum. Í útiveru eftir kaffið byrjaði brennókeppnin og það fór fram íþróttakeppni sem fólst í því hver væri með stærsta brosið, mælt með reglustiku…hér geta nefnilega allir keppt í íþróttakeppnum því þær eru allskonar (og oft hafa ekkert með íþróttir að gera). Í kvöldmat fengu stelpurnar grjónagraut og lifrarpylsu. Eftir kvöldmat var haldin brunaæfing, þar sem æfð voru viðbrögð við eldsvoða.
Í kvöldvöku fóru stelpurnar út í kvöldsólina og í ratleikinn Amazing race VIP. Það er alltaf jafn gaman að heyra hlátrasköllin út um gluggann og heyra hvað þær eru að skemmta sér vel.
Í hugleiðingu töluðum við um mikilvægi orða okkar og hvernig orð geta sært. Eftir hugleiðingu fengu stelpurnar að fara út í læk að bursta tennurnar, við nýtum góða veðrið meðan það er. Í lok kvöldsins fór fram svokölluð bænakonuleit, en það er alltaf spennandi þegar herbergin fara á milli starfsfólks sem blað af staðreyndum og reyna að komast að því hver er þeirra bænakona. Þegar herbergin hafa fundið sína bænakonu fer hún með þeim inn í sín herbergi og eiga þær rólega stund saman með spjalli og bænum.
Spennandi dagur framundan í dag, fyrstu myndirnar úr flokknum fara að detta inn á flickr 😉
Kærleikskveðja úr Hlíðinni fríðu
Marín Hrund forstöðukona