Hæ, hó, jibbí jei og jibbí jei, það er kominn 17.júní.

Stelpurnar voru vaktar upp með söng og fengu svo morgunmat. Eftir morgunmat fóru þær í fánahyllingu og þaðan beint á biblíulestur með forstöðukonu. Á biblíulestri sungum við, ræddum um Biblíuna og töluðum um söguna um Davíð&Golíat. Ræddum boðskap sögunnar, að hafa trú á sjálfum sér, setja sér raunhæf markmið og hlusta ekki á neikvæðar raddir eða láta þær hafa áhrif á okkur. Eftir biblíulestur fóru fram nokkrar brennókeppnir og íþróttakeppnir, m.a að blása seríosi eins langt og þær geta og kraftakeppni. Einnig var hægt að fara í föndurherbergið að búa til skilti fyrir hurðarnar á herberginu sínu og inní setustofu var hárgreiðslukeppni. Í hádegismat fengu stelpurnar mexíkósúpu og nýbakað brauð.

Útivera dagsins bauð ekki uppá mikla útiveru, þar sem það rigndi verulega á okkur í Hlíðinni eftir hádegið, er það ekki bara týpískt fyrir 17.júní. Við fórum í stutta skrúðgöngu í Hallgrímskirkju með okkar eigin fjallkonu sem las fallegt ljóð um Ísland og saman sungum við þjóðsönginn. Eftir kirkjustundina var boðið upp á karnival stöðvar sem stelpurnar höfðu mjög gaman af. Þær gátu m.a fengið andlitsmálningu, hitt spákonu, farið í frisbíkast-keppni, eggjaboðhlaup og fleira skemmtilegt. Auðvitað fengu allar stelpurnar svo nammipoka í tilefni dagsins, sem innihélt meðal annars RISA sleikjó og allskonar sykurleðjur. Í kaffinu var boðið uppá risa súkkulaðiköku með fánalitunum og mjólk. Eftir kaffið héldu brennó, íþróttir og föndur áfram ásamt frjálsri útiveru.

Í kvöldmat var boðið uppá lasagne og hvítlauksbrauð. Kvöldvakan í kvöld var haldin í íþróttahúsinu, en þar fór fram keppnin Vindó top model. Þar búa herbergin til flott dress úr einum ruslapoka og halda svo tískusýningu. Flottasti kjóllinn verður svo krýndur á veislukvöldinu og fær herbergið viðurkenningu fyrir.

Eftir kvöldkaffi fór fram stutt hugleiðing, því það sem stelpurnar vissu ekki var að framundan var náttfatapartýið okkar !! Þegar þær héldu að þær væru komnar í ró uppi í rúmi og bænakonur á leiðinni, hlupu allir foringjar inn ganginn og kölluðu: hæ hó jibbí jei, það er komið náttfatapartý ! Inní eldhús var hoppað uppá borð og sungið og dansað og áhugaverðir einstaklingar mættu í djúpu laugina (leikþáttur í boði foringja). Partýið einkenndist af miklum dansi, söng, svita og fjöri. Í lokin fengu allar stelpurnar íspinna og fóru svo sælar og þreyttar inn í herbergi með sinni bænakonu í ró.

Ævintýrið heldur áfram á morgun 

Endilega kíkið á myndir inná flickr !

 

Kær kveðja úr rigningunni

Marín Hrund forstöðukona