Á fallegum föstudegi runnum við í hlað í Hlíðinni í fallegu veðri. Stelpurnar fóru beint inn í matsal þar sem forstöðukona fór yfir reglur staðarins og þeim var raðað í herbergi. Síðan fóru þær með bænakonunum sínum í leiðangur um svæðið og þeim sýnt það helsta sem svæðið hefur upp á að bjóða. Í kaffinu var boðið upp á jógúrtköku og bananabrauð, ásamt ísköldu mjólkurglasi.
Eftir kaffitímann var frjáls tími og þá er ýmislegt í boði. Nokkur herbergi fóru í brennó, opið var í föndurhergberginu sem er alltaf vinsælt og boðið var upp á tvær íþróttakeppnir. Það voru húshlaupið, en þar hlaupa stelpurnar hringinn í kringum aðalbygginguna á sem skemmstum tíma og einnig var stígvélaspark, en þar fá stelpurnar risastórt stígvél á löppina sem þær eiga að reyna sparka eins langt og þær geta. Allar keppnir sem stelpurnar taka þátt í gefa þeim stig í keppninni og eru keppnirnar misjafnar eins og þær eru margar og eru alls ekki allar tengdar íþróttum, við erum td. með rúsínuspíting og seríosblástur. Herbergin eru líka að keppast um að standa uppi sem sigurvegarar Íþróttaherbergi flokksins og þá skiptir máli að allir í herberginu taki þátt í öllum keppnum og geri sitt besta og eru hvetjandi fyrir hina í herberginu sínu sem eru að keppa.
Í kvöldmat var boðið upp á nokkrar gerðir af skyri og nýbakað brauð. Eftir kvöldmat var haldin brunaæfing og stóðu stelpurnar sig frábærlega að rýma húsið. Á kvöldin er alltaf haldin kvöldvaka og nokkur herbergi sjá um að vera með atriði á hverri kvöldvöku. Í kvöld voru 3 herbergi með stórskemmtileg frumsamin leikrit, hjá mörgum er þetta það sem situr eftir hjá þeim eftir ferðina, að fá að búa til og skapa og sýna hinum stelpunum.
Í kvöldkaffi fengu stelpurnar appelsínur og perur og eftir það fóru stelpurnar inn í setustofu á hugleiðingu. Þar hlustuðu þær á flotta sögu með fallegum boðskap um að passa orðin sín og að orð geta skilið eftir sig ör í hjartanu sem eiga erfitt með að gróa.
Stelpurnar eru allar ótrúlega duglegar að taka þátt í söng og eru til fyrirmyndar.
Hér fara 83 sáttar og glaðar stelpur að sofa eftir að hafa farið út í læk að tannbursta sig og átt kósýstund með bænakonum.
kær kveðja
Marín Hrund forstöðukona