Jæja, fyrsti heili dagurinn búinn í sól og blíðu í Vindáshlíð.
Dagurinn byrjaði ansi snemma hjá okkur í dag þar sem margar stelpur voru vaknaðar hér fyrir allar aldir. Eftir morgunmat fóru stelpurnar út á fána í fánahyllingu og þaðan lá leiðin niður í kvöldvökusal á biblíulestur með forstöðukonu. Þar ræddum við aðeins um söguna um Davíð&Golíat, hversu mikilvægt er að hafa trú á sjálfum sér og eigin getu og láta aldrei neikvæð orð frá orðum hafa áhrif á okkur sjálf. Þær eru ótrúlega duglegar að hlusta og taka þátt í umræðum, sem er ótrúlega skemmtilegt og hér eru að skapast allskonar frábærar umræðum um ýmsilegt.
Eftir biblíulestur fóru fram brennóleikir, íþróttakeppnir og vinsæla föndurherbergið var auðvitað opið. Í hádegismat fengu stelpurnar kjötbollur, sósu og kartöflumús. Þær eru líka mjög duglegar að borða og fara margar í „ferð nr 2“ að matarborðinu. Við viljum að stelpurnar fari aldrei svangar út úr matsalnum og þær passa alltaf að borða vel.
Í útiveru dagsins var ferðalaginu heitið gangandi í réttir sem eru við veginn. Að hliðinu er 1km ganga, að réttunum frá hliðinu eru ca 500m, svo samtals er göngutúrinn um 3km. Í réttum fara stelpurnar í nokkra leiki, þar sem þær eru að leika kindur og foringjar að reyna smala þeim í rétt hólf. Ótrúlega skemmtileg útivera sem allar höfðu gaman af, en margar kvörtuðu hins vegar yfir fýlunni sem var í réttunum, þær voru ekki alveg að gúddera lyktina.
Eftir útiveru var boðið uppá nýbakaða og volga súkkulaðiköku og kryddbrauð. Eftir kaffitímann héldu svo brennóleikir og íþróttakeppnir áfram, en þetta er einnig frjáls tími svo ef þú ert ekki að keppa í brennó er alveg frjálst að gera það sem þær vilja. Margar hlupu um útisvæðið okkar þar sem veðrið lék við okkur í dag og sólin skein.
Í kvöldmat var rjómapasta og hvítlauksbrauð, það sló rækilega í gegn hjá flestum stelpunum. Það fór enginn svangur út úr þeim matartíma. Í kvöldvökunni voru 4 herbergi með atriði, ótrulega flott og skemmtileg og það var mikil hlegið.
Við enduðum kvöldið á ávöxtum og hlustuðum svo á flotta sögu um að gefast aldrei upp í hugleiðingu kvöldsins. Stelpurnar voru flestar orðnar ansi þreyttar, enda voru þær flestar komnar á fætur fyrir kl.7 í morgun. Stelpurnar eru nú komnar í ró með bænakonum, en við stefnum á að sofa aðeins lengur í fyrramálið 🙂
Spennandi dagar framundan. Mæli með að kíkja á flikcr ljósmyndasíðuna hjá okkur, en þar streyma inn myndir úr flokknum.
Kær kveðja
Marín Hrund forstöðukona