Vá! Þvílíkur hópur sem er hér komin saman í 9.flokk í Hlíðina fríðu. Um 80 spenntar og hressar stelpur lögðu af stað úr borginni í gær – heldur betur tilbúnar í sumarbúðalíf næstu daga. Það var gosmóða upp í Kjós en 18 stiga hiti og sól svo það varð heldur betur fljótt heitt hjá okkur. Við reyndum að vera sem mest inni en nýttum íþróttahúsið og annað innisvæði vel. Við þurftum að opna glugga því það var orðið ansi mikið gufubað hjá okkur um kvölmatarleyti. Stelpurnar hafa fæstar komið áður og er dásamlegt að fá að kynna þeim nýju fyrir töfrum sumarbúðanna. Þær fengu nýbakaða pizzasnúða og sjónvarpsköku í kaffinu og svo grjónó og slátur í kvöldmat. Brennóleikir hófust og var mikið fjör í þeim. Allir komu sér vel fyrir í herbergjunum sínum og nutu þess að kynnast nýjum vinkonum. Á kvöldvöku héldu þrjú herbergi atriði og mikið sungið og sprellað. Þessi hópur er einstaklega ljúfur og góður, jákvæður og til í allt. Á hugleiðslu var talað um kvíða og hvað við getum gert við óþægilegar tilfinningar, að kvíði sé eðlilegur og að það styrki okkur að ganga í gegnum erfiðleikana í stað þess að fresta verkefnunum. Þær hlustuðu vel og fóru svo að hátta, pissa og bursta til að vera klárar inni á herbergi þegar bænakonur myndu koma. Það gekk vel að fara að sofa og aðeins einstaka stelpa sem fékk smá heimþrá – kom fram í extraknús og svo aftur inn að sofa. Ró var komið í húsið á miðnætti og er það mjög gott miðað við fyrstu nótt.
Í morgun voru aðeins nokkrar vaknaðar fyrir 9 og töluðu þær hljóðlega saman til að vekja ekki hinar – langflestar voru enn sofandi þegar var farið að vekja og voru fljótar að klæða sig og koma sér í morgunmat. Það hafði rignt smá um nóttina og því loftgæðin fín í Kjósinni þessa stundina. Allar fóru upp að fána að syngja hann upp og svo í kvöldvökusalinn og biblíulestur sem var um sögu Vindáshlíðar og hvernig starfið hófst hér og hefur breyst og það sem er enn eins og þegar fyrstu stúlkurnar komu hingað í flokk árið 1947, á hestum og gist í tjöldum. Dýrmæt og dásamlega saga sem má ekki gleymast. Þær eru núna roknar af stað í brennó, íþróttir, föndur, sturtur og frjálst. Allar spenntar og glaðar fyrir komandi degi – vonandi byrja myndir að detta inn hjá okkur og endilega fylgist með 🙂 https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327715114/
Kærleikskveðjur úr Vindáshlíð,
Hanna Lára, forstöðukona