Hæhæ og hó… úr Kjósinni er allt gott að frétta. Stelpurnar fóru í göngu í gær í réttirnar og fengu nýbakað kryddbrauð og súkkulaðiköku í kaffinu þegar þær komu þreyttar og sælar til baka. Öllu svo skolað niður með ískaldri mjólk.
Áfram hélt svo spennandi brennó, íþróttakeppnir, föndur og sturtur auk þess að síðustu fjögur herbergin fóru að undirbúa fyrir kvöldvöku.
Það var píta með öllu tilheyrandi í kvöldmat og eru stelpurnar ofsa duglegar að borða 🙂
Kvöldvakan var gríðarlega hress og skemmtileg – frábær atriði – dans og söngur og bara almenn gleði í hópnum. Á hugleiðingu var talað um fyrirgefninguna, hvað oft sé erfitt að fyrirgefa og líka að biðja aðra um fyrirgefningu. Stelpurnar hlustuðu vel og meðtóku það sem var verið að kenna þeim. Þær voru ofsa glaðar að mega fara út í læk að bursta tennur og margar sem nýttu sér það.
Vel gekk að fara að sofa og var komin ró í húsið rúmlega miðnætti eins og síðustu kvöld. Allar voru þær sofandi þegar var komið að vekja í morgun kl 9 en fljótar að koma sér á fætur. Í dag eru þær formlega orðnar Hlíðameyjar – en þeim áfanga fögnum við þegar stelpur hafa gist þrjár nætur samfleytt í Vindáshlíð og höldum við upp á það með Cocapopps í morgunmat.
Á Biblílestri í dag lærðum við um bókina Biblíuna – í hvað hún skiptist, um hvað hún væri og afhverju hún væri kölluð orð Guðs. Við fórum aðeins yfir boðorðin 10 og mótsagnakenndu boðorðin. Það er sérlega skemmtilegt að spjalla við þessar stelpur því þær hlusta svo vel og virðast meðtaka og velta fyrir sér því sem við erum að reyna að kenna þeim. Ósk okkar er sú að þær upplifi kærleika og fari með hann með sér heim.
Undanúrslit og úrslit í Brennó verða núna fyrir mat og eftir hádegi hefst veisludagsdagskrá. Ótrúlega fljótir þessir dagar að líða….
En við komum í bæinn á morgun, föstudag, á Holtaveg um 14.40 – ef einhver er sóttur upp í Hlíð eitthvað fyrr væri gott að fá símtal um það.
Kærleikskveðjur úr rigningu og roki, gleði og spennu
Hanna Lára, forstöðukona <3