Áfram heldur að vera rosa gaman hjá okkur, veisludagurinn heppnaðist ótrúlega vel. Úrslit í brennó voru fyrir kaffi og svo í kaffinu fengu þær gulrótaköku og kanillengjur og svo var veislupizza og djús í kvöldmat. Þær héldu vinagang og klæddu sig upp fyrir Guðþjónustu í kirkjunni okkar – þar sem við heyrðum sögu kirkjunnar, útskýringu á Faðir vorinu og sungum saman. Að gamalli hefð á veisludegi er fáninn sunginn niður og við „vefum mjúka“ í halarófu niður í hús þar sem við förum í herbergjamyndatökur með bænakonunum okkar.
Veislumaturinn var dásamlegur og yfir matnum voru afhentar viðurkenningar fyrir allskonar sem hafði verið að gerast yfir flokkinn, s.s innanhúskeppni, skutlukeppni, brennó og íþróttir o.fl.
Foringjar slógu í gegn á kvöldvöku með agalega skemmtilegum og fyndnum atriðum sem stelpurnar skemmtu sér vel yfir. Síðan fengu þær ís og kvöldsögu um Vimmana. (biðjið þær að segja ykkur frá).
Ekkert mál að fara að sofa og eins og fyrri nætur var komin ró á miðnætti. Vakið var kl 9 í morgun og eru einhverjar farnar að týnast úr hópnum í ný ævintýri. Núna er brennóleikur milli foringja og brennómeistara niðri í íþróttahúsi og allir að fylgjast spenntir með. Við grillum okkur pylsur í hádegismat og förum svo að pakka og hafa kveðjustund með foringjum. Rútan er áætluð á Holtaveg kl 14.40 í dag.
Takk fyrir lánið á dýrmætu stelpunum ykkar og vonandi fara þær allar með góðar minningar heim og hlýtt í hjarta.
Kærleikskveðjur, Hanna Lára forstöðukona