Góðan daginn
Þá er fyrsta heila deginum okkar lokið hér í Vindáshlíð, og mér er óhætt að segja að það hafi verið stútfull dagskrá og mikil gleði í flotta hópnum okkar. Við byrjuðum daginn á morgunmat, þar sem maður verður nú að næra sig vel hér, og hafa næga orku á tanknum. Eftir það áttum við kósýstund saman þar sem við sungum öll okkar uppáhalds Vindáshlíðarlög, ég sagði þeim sögu um strák sem ætlaði sér að ná markmiðunum sínum og gefast aldrei upp. Þeim fannst sú saga skemmtileg, og margar tengdu við hana. Í hádegismat var fiskur og franskar, það rann vel í hópinn. Eftir það var farið í göngutúr að Brúðarslæðu, þar sem sólin skein á okkur fengu stelpurnar að vaða og það vakti mikla lukku. Eftir gönguna var kaffi tími, þá var frábæra Gulla bakari búin að gera smákökur og súkkulaði köku fyrir stelpurnar. Það fannst þeim mjög gott. Eftir kaffið, voru stelpurnar mikið úti að leika í sólinni, það voru ýmsar keppnir í gangi inni t.d ljóðakeppni, planka keppni, broskeppni, hlaupa niður stiga keppni og auðvitað skemmtilega brennókeppnin okkar. Í kvöldmatinn var svo grjónagrauturinn vinsæli sem meistara kokkurinn okkar Hanna töfraði fram sem var extra góður eftir svona skemmtilegan dag. Á kvöldvöku nýttum við aftur góða veðrið og fórum í hópleiki bæði inni og úti. Stelpurnar fengu svo að tannbursta sig í læknum, það vekur alltaf jafn mikla lukku. Eftir það fóru þær í náttföt og áttu kósýstund með bænakonunum sínum. Enn svo voru foringjarnir búnar að plana náttfatapartý sem kom heldur betur á óvart. Þá er dansað uppi á borðum, borðað ís, og foringjarnir okkar voru með skemmtiatriði sem voru mjög fyndin og skemmtileg. Eftir það var komin mikil þreyta í hópinn, og sváfu stelpurnar vel í nótt.
Bestu kveðjur Kristín Björt