Heil og sæl kæru foreldrar og forráðamenn stúlkna í 11.flokki í Vindáshlíð.

Hér er allt gott og gaman að frétta, rúmlega 80 stelpur lögðu af stað spenntar í gær frá Holtaveginum, um helmingur hafði komið áður en hinn helmingur í fyrsta skipti. Við fórum yfir reglur og röðuðum í herbergi. Stelpurnar hjálpuðust að við að búa um og gera kósý hjá sér áður en þær héldu af stað að skoða svæðið. Í kaffinu var súkkulaðikaka og kryddbrauð sem rann ljúflega niður með mjólk/vatni. Strax var farið af stað í íþróttakeppni sem var stærsta brosið að þessu sinni, æfingabrennóleikir, goggakeppni, vinabandagerð og þau herbergi sem sáu um kvöldvöku fóru að undirbúa sig. Í kvöldmat var svo geggjaður grjónó sem sló í gegn.

Kvöldvakan gekk vel og var mjög skemmtileg – sungið, hlegið og klappað. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi áður en við fórum á hugleiðingu. Þar ræddum við um hvað væri gott að gera ef maður fyndi fyrir stressi eða kvíða og að það væri eðlilegt að finna þær tilfinningar eins og gleði, sorg og aðrar tilfinningar.

Bænakonur komu til herbergja sinna og áttu notalega stund og spjall við stelpurnar sínar fyrir nóttina.

Ágætlega gekk að sofna, þó að nokkrar fengu smá heimþrá og komu í extra knús áður en þær reyndu aftur að sofna. Það átti að vekja kl 9 og ef maður myndi vakna fyrr ætti að leyfa öllum sem vildu að fá að sofa til 9, en það gekk pínu brösulega hjá okkur í morgun – ætlum að vanda okkur betur á morgun að læðast og tala hljótt ef við vöknum fyrr.

Við erum búnar að fá okkur morgunmat og fara á Biblílestur þar sem var farið í sögu Vindáshlíðar og sagt frá starfi KFUM og K á Íslandi. Stelpurnar hlustuðu vel og tóku þátt í lögum og hreyfingu. Það er pínu kalt hjá okkur og blautt svo við minnum þær stöðugt á að vera vel klæddar og passa sig að verða ekki kalt.

Nú fara að detta inn myndir hjá okkur svo endilega fylgist með okkur þar… nú eru þær að fara í kraftakeppni, brennó, föndur, spjall og vinabandagerð áður en við förum svo í hádegismat. VIð ætlum að taka stöðuna á útiveru eftir mat og sjá hvað við gerum ef verður mikil rigning. 🙂

Annars bara kærleiksknús úr Kjósinni,
Hanna Lára forstöðukona