Hæhæ

Fyrsta nóttin yfirstaðin og stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel að fara að sofa. Það er mjög erfitt fyrir margar að fara úr örygginu hjá mömmu og pabba og eiga að fara sofa annars staðar þar sem þú þekkir ekki til. En á endanum sofnuðu stelpurnar og sváfu værum svefni til kl.7:30/08:00 í morgun. Þær voru vaktar með tónlist og söng og leiðin lá í morgunmat. Stelpurnar fengu hlaðborð með allskyns morgunkorni og mjólkurvörum, ásamt nýbökuðu brauði sem ráðskonan okkar bakaði kl.7 í morgun 🙂

Eftir morgunmat fóru stelpurnar út að fánastöng og sungu meðan fáninn var dreginn að húni. Úr fánahyllingu fóru stelpurnar svo niður í kvöldvökusal þar sem forstöðukona og aðstoðarforingjar biðu þeirra. Stelpurnar eru að læra á hvernig dagarnir ganga fyrir sig í Vindáshlíð og á morgnanna eftir fánahyllingu er alltaf biblíulestur með forstöðukonu. Við töluðum aðeins um Biblíuna, hvernig hún skiptist upp og hvað er að finna í henni. Spjölluðum saman um hvernig heimurinn varð til samkvæmt Sköpunarsögunni og ræddum svo hvernig við héldum að heimurinn gæti hafa orðið til, öðruvísi en segir í Biblíunni. Við sungum fullt af skemmtilegum lögum og dönsuðum auðvitað með.

Eftir biblíulestur var komið að frjálsa tímanum. Í frjálsum tíma mega stelpurnar leika sér og gera það sem þær vilja, en starfsfólk er alltaf með nokkrar stöðvar í boði. Það var til dæmis hægt að kíkja í föndurherbergið og þar var goggakeppni, hver býr til flottasta gogginn og frumlegasta gogginn, föndurherbergið er alltaf mjög vinsælt. Það var einnig hægt að fara í leiki í íþróttahúsinu og einnig hægt að taka þátt í tveim „íþróttakeppnum“ úti á fótboltavelli, annars vegar störukeppni og hins vegar að halda 90° upp við vegg eins lengi og þær gátu. Útisvæðið okkar bíður upp á allskonar skemmtilegt og margar kusu líka að fara bara út að leika. Svo núna eru prinsessurnar hlaupandi um allt hús og allt útisvæðið og allir kátir&glaðir.

                          

Framundan er svo skemmtileg dagskrá í dag og fram á kvöld. Ég ákvað að setja bara strax inn fréttir eftir morguninn og skrifa svo aðrar fréttir seint í kvöld 🙂

att.cCx-XDjPildPfRW-Ia9X5zQQURWVcUQrTnZFt_nBTIw

kær kveðja úr Hlíðinni fríðu

Marín Hrund forstöðukona