Í dag voru stelpurnar vaktar af ótal ávöxtum sem buðu þær velkomnar í ávaxtakörfuna. Þarna voru að sjálfsögðu Immi ananas, Eva appelsína, bananarnir, eplið, jarðaberið og allir hinir líka. Sýnd voru atriði í hverjum og einum matartíma og sagt söguna um ávaxtakörfuna stelpunum til mikillar lukku.
Í morgunstundinni fórum við yfir það hvað það er mikilvægt að vera góð hvort við annað. Það getur verið stembið að búa 80 stelpur saman hér í Vindáshlíð þannig að það er góð æfing í því að vera góð hvort við aðra.
Í hádegismatinn var blómkálssúpa og brauð en síðan var haldið í útiveru þar sem farið var í leikinn Týndi foringinn. Það er einskonar rannsóknar leikur þar sem að stelpurnar þurfa að leysa vísbendingar sem að myndi leiða þær að næstu stöð og svo loks að týnda foringjanum. Stelpurnar nutu sín vel í leiknum og fannst mjög gaman, sérstaklega því að sólin skein og veðrið var alveg dásamlegt.
Í kaffitímanum var bananabrauð og möndlukaka. Eftir kaffi var frjáls tími þar sem farið var í brennó, íþróttir, föndur og fleira en einnig var boðið upp á það að fara í vatnsstríð í hoppukastalanum í góða veðrinu.
Í kvöldmat voru tortillur en síðan var haldið á kvöldvöku í íþróttahúsinu þar sem farið var í spurningaleikinn Viltu vinna miljón. Þar stóð ein stelpa í flokknum uppi sem sigurvegari. Loks var haldið í kvöldkaffi og hugleiðingu þar sem talað var um það hvað orðin okkar geta sært og skilið eftir sig ör hjá öðru fólki og þessvegna sé svo mikilvægt að vera góð hvort við annað.
Þegar að stelpurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki og fleira og enduðum partýið á að fá frostpinna.
Það fóru því vel þreyttar er hrikalega glaðar stelpur á koddan hér í Hlíðinni í kvöld.
Ég minni aftur á símatíma alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044 ásamt instagramminu okkar (@vindashlid) og myndum frá flokknum inn á: Myndir 7. flokkur
Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona