Þessi sunnudagur hefur verið mjög litríkur og skemmtilegur. Eftir morgunmat og biblíulestur var brennó og íþróttakeppnir. Stúlkunum var öllum boðið út að borða í hádeginu – grillaðar pylsur og tilheyrandi úti á túni. Eftir hádegi var hlíðarhlaupið vinsæla, kraftakeppni hélt áfram og broskeppni sem flestar tóku þátt í. Í kaffitímanum fengum við djús og bakkelsi út á hlað sem rann ljúflega niður enda útivera í hita og sól mjög orkufrek iðja. Eftir kaffi var aftur brennó, sumar óðu í læknum og aðrar fóru í leiki á túninu. Í kvöldmat var svo grjónagrautur og brauð sem sló í gegn. Þá var hringt inn í kvöldmessu þar sem stúlkurnar sungu eins og englar, tvær fluttu tónlist og tvær aðrar sungu fyrir hópinn. Að messu lokinni var veglegt kvöldkaffi með brauði, kökum og ávöxtum. Stuttu eftir að bænakonur komu inn á herbergi til sinna stúlkna hófst brunaæfing og gekk hún hratt og vel fyrir sig og tók innan við 10 mínútur að safna öllum saman úti á túni – allt eftir settum reglum. Úti fengu stúlkurnar svo að vita að nú væri næturleikur að hefjast og drifu sig allar inn og í hlý föt. Þá var öllum hópnum skipt uppí fjóra hópa sem hver um sig fékk nafn einnar heimavistar í Hogwartskóla. Vakti þetta mjög mikla lukku og fóru meðlimir hvers hóps hönd í hönd á milli stöðva þar sem persónur úr sögunum tóku á móti þeim og fólu þeim þrautir að leysa. Leiknum lauk nokkru eftir miðnætti með gítarspili og söng og voru allir komnir í ró í koju upp úr klukkan eitt.
Þetta var frábær dagur á frábærum stað með frábærum stelpum sem eru staðráðnar í að hafa gaman í þessum ævintýraflokki.
Myndirnar eru
hér.
Kveðja,
Auður Páls forstöðukona