Hér í Vindáshlíð flýgur tíminn áfram og við trúum því varla að það flokkurinn sé nú brátt á enda runninn.
Það hefur ekki vantað fjörið og skemmtilegheitin í flokkinn, þrátt fyrir að veðrið hafi reynt sitt besta til að gera okkur erfitt fyrir. Gærdagurinn var tileinkaður okkur sjálfum og fór allur dagurinn í undirbúning á tískusýningu sem var svo haldin með pomp og prakt síðar um kvöldið. Skipuð hafði verið tískusýningarnefnd í fyrradag sem var skipuð einni stelpu úr hverji herbergi og hélt hún meira og minna utan um tískusýninguna…..og stóð sig alveg frábærlega.
Eftir biblíulestur þar sem stelpurnar fræddust aðeins um Jesús fóru þær í brennó og íþróttir. Við gæddum okkur á hakki og spagettíi í hádeginu og svo var þeim skipt upp í 5 hópa sem röltu á milli 6 mismunandi stöðva þar sem þær sátu í hálftíma á hverjum stað. Á einni stöðinni hannaði hvert herbergi einn kjól og á þeirri næstu fengu þær að sauma kjólinn sem þær höfðu hannað. Á einni stöðinni var rætt við þær um málingu, hvernig ætti að mála sig og skaðsemi þess að þrífa ekki af sér málinguna á kvöldin eða nota of mikið af henni. Einnig fóru þær á hárgreiðslustöð þar sem þeim var kennt ýmislegt sniðugt sem hægt er að gera í hár, og fjallað um umhirðu hársins. Þær lærðu um fylgihluti og klæðaburð á einni stöðinni og um framkomu á einni, þar lærðu þær hvernig ætti að bera sig, hvernig ætti að ganga á sýningarpalli og þar var líka farið lauslega í líkamsímynd og rætt við þær um átraskanir. Að loknum kvöldverðinum þar sem hámuðum í okkur ávaxtasúrmjólk af bestu lyst klæddum við okkur svo allar upp í okkar fínasta púss og mættum í kokteilpartý inní setustofu. Þar var boðið uppá fordrykk í sykurskreyttum spariglösum á meðan leiknir voru ljúfir tónar. Úr partýinu héldu stelpurnar svo niður í kvöldvökusal þar sem búið var að setja upp sýningarpall og skreyta salinn hátt og lágt. Á tískusýningunni átti svo hvert herbergi 2 módel, annað sýndi hversdagsföt og hitt klæddist kjólnum sem þær höfðu saumað fyrr um daginn. Til að gera leikinn enn skemmtilegri var svo ákveðið að fá góða dómara til leiks og gera smá keppni úr þessu öllu saman. Dómararnir voru ekki af verri endanum, en í dómnefnd sátu Miss J, Nigel Barker og Janice Dickenson. Að keppni lokinni héldu stelpurnar á hugleiðingu þar sem talað var við þær um hversu dýrmæt sköpun þær væru, hver og ein, áður en þær fengu smá hressingu og fengu bænakonuna sína inn til sín. Deginum var þó ekki alveg lokið þar, því stuttu eftir að bænakonurnar höfðu farið útúr sínum herbergjum hlupu foringjarnir um ganganna, skreyttir klósettpappír og berjandi á pottlok og hóuðu þær allar inní matsal þar sem tekin var allsvakaleg danstörn áður en þær settust niður í setustofunni og við héldum alvöru náttfatapartý…..sem tók hátt í 2 og hálfan tíma. Að því loknu lögðust þær dauðþreyttar í sín rúm og sofnuðu flestar samstundis, eftir langan og skemmtilegan dag.
Í morgun fengu stelpurnar mjög svo langþráð útsof sem vakti gríðarmikla lukku. Biblíulesturinn í morgun var svoldið öðruvísi, en eftir að hafa talað aðeins við þær um náðargjafir var þeim skipt upp í 5 hópa. Í hópunum ræddu foringjarnir svo þessa hluti aðeins persónulegra við þær og þær hvattar til að skoða kostina sína og finna þær náðargjafir sem Guð hefur gefið þeim. Í hádegismatinn fengum við svo lambakjöt, kartöflur og brúna sósu áður en haldið var í gönguferð uppá fjallið Írafell. Þessi ganga lagðist nú misvel í hópinn en allar héldu þær þó af stað….þó ekki hafi allar haft orku í að ná alla leið uppá topp. Við náðum að troða inn nokkrum brennóleikjum á milli heimkomu og grjónagrautar og eftir kvöldmat komum við þeim á óvart með hinum sívinsæla Hermannaleik þegar þær héldu að við ætluðum að senda þær í aðra gönguferð dagsins, nú uppá Sandfell. Hermannaleikurinn brást ekki frekar en fyrri daginn og stelpurnar hlupu um allan skóg af ótta við að uppáklæddir foringjar næðu þeim og færu með þær í fangabúðirnar. Margar náðu að klára leikinn, þ.e. finna báða mennina sem þær þurftu að finna, og fá allar vísbendingar sem þær þurftu að fá, til þess að finna griðarstaðinn þar sem þær væru hólpnar. Eftir leikinn tókum við okkur aðeins til í andlitinu, fengum okkur kvöldhressingu og mættum svo í stutta kvöldmessu í kirkjunni okkar. Þar ræddum við aðeins um fyrirgefninguna. Bænakonurnar áttu svo góða stund með sínum herbergjum eftir messuna og allir voru komnir í sín rúm um klukkan hálf tólf. Þá var þó deginum ekki lokið, frekar en fyrri daginn, en fljótlega eftir að ró var komin á herbergin voru þær hóaðar saman og þær sendar af stað í Harry Potter leik þar sem foringjarnir höfðu brugðið sér í gervi hinna ýmsu karaktera úr ævintýrasögunum um Harry Potter og voru með stöðvar þar sem stelpurnar leystu hin ýmsu verkefni. Þær voru því vel þreyttar og sælar þegar þær loksins fengu að skríða aftur uppí rúmin sín nú rétt í þessu ….já, svona er að vera í óvissuflokki J
Við bíðum allar spenntar eftir að sjá hvað næstu 2 dagar bera í skauti sér….og hvort veðrið fari nú ekki að verða okkur hliðhollt 😉
Kveðja
Bára og Tinna Rós
Ps. Myndir frá síðustu dögum koma inn von bráðar!