Jæja, þá er þriðja deginum hér í Vindáshlíð senn að ljúka eftir vel heppnaðan amerískan dag í gær þar sem við æfðum okkur vel í enskunni allan daginn. Við byrjuðum gærdaginn með látum, vöktum stelpurnar og fórum beint í morgunleikfimina sem var í anda Boot camp. Að lokinni fánahyllingu fórum við í morgunmat þar sem boðið var uppá nýbakaðar vöfflur og muffins samhliða morgunkorninu. Að sjálfsögðu höfðum við eins amerískan matseðil og völ var á og buðum uppá Slobby Joe í hádeginu og maccaronies and cheese í kvöldmat.
Eftir hádegi héldum við svo Forrest Gump-hlaup niður að hliði áður en foringjarnir brugðu á leik og tóku leikræna kennslu í amerískum deit-siðum. Eftir kvöldvöku, þar sem haldin var „Vindáshlíð got talent“ hæfileikakeppni, hlustuðum við á hugleiðingu um sr.Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM og KFUK á Íslandi áður en við héldum kósýkvöld þar sem við grétum saman yfir myndinni A walk to remember. Að henni lokinni héldum við svo til rekkju, allar sælar og sáttar eftir skemmtilegan dag.
Í morgun vöknuðum við svo sprækar og klæddum okkur allar í bleikustu fötin okkar. Í dag er nefnilega bleikur dagur. En ekki nóg með það heldur erum við líka með svokallaðan menningardag. Á biblíulestrinum í morgun skoðuðum við aðeins helstu trúarbrögðin í heiminum í dag og hvernig þau væru frábrugðin kristni. Einnig skoðuðum við hina ýmsu anga kristinnar trúar og hver munurinn væri til dæmis á mótmælendatrú og kaþólskri trú. Eftir að hafa gætt okkur á fiskibollum og bleikum hrísgrjónum í hádeginu settum við svo upp 7 stöðvar með landakynningum þar sem foringjar voru með kynningu á ákveðnum löndum sem þeir hafa verið að ferðast til, búið í eða hafa sérstakan áhuga á. Stelpurnar völdu sér 3 kynningar til að fara á og fengu svo smá tíma að því loknu til að rölta á milli þeirra stöðva sem þær komust ekki í kynningu á og skoða muni og annað sem foringjarnir höfðu að sýna þeim. Þau lönd sem voru í boði voru: Kenya, Kína, Frakkland, Rússland, Palestína, Ísland og Bandaríkin, nema í Bandaríkjakynningunni var aðallega einblínt á indjána og menningu þeirra. Stelpurnar virtust hafa mjög gaman af þessum kynningum og gengu um gangana og voru duglegar að fræða okkur foringjana um alls kyns nýja siði og orð sem þær hafa lært. Eftir að hafa snætt bleikar kökur í kaffitímanum voru svo brennóleikir, íþróttakeppnir, vinabönd og frjáls tími sem stelpurnar nýttu til að hvíla sig og fara í sturtu. Í kvöldmat var boðið upp á bleika ávaxtasúrmjólk og heitt brauð sem sló heldur betur í gegn. Í lok matartímans var stelpunum sagt að fara og klæða sig vel og mæta aftur í matsalinn þegar bjöllunni yrði hringt. Þar sem þetta er nú óvissuflokkur ákváðum við að segja þeim ekkert hvað við ætluðum að gera og þær höfðu enga hugmynd um hvað væri næst á dagskrá. Þær héldu flestar að við værum á leiðinni í göngu og upphófst mikið gleðióp þegar þær fréttu að þær væru í raun á leiðinni í Ævintýraheim Vindáshlíðar. Þar hittu þær fyrir margar skemmtilegar og misgóðar persónur úr hinum ýmsu ævintýrum, eins og t.d. úlfinn úr Rauðhettu, Kapteinn krók og Hróa hött. Að lokinni ferð í gegnum Ævintýraheim Vindáshlíðar gæddu stelpurnar sér á kvöldkaffi, þar sem boðið var upp á ávexti og fleira gott. Bænakonurnar kíktu í stutta heimsókn til þeirra áður en hugleiðing byrjaði. Í framhaldi hugleiðingarinnar fengum við góða gesti sem hjálpuðu okkur foringjunum að kynna fyrir stelpunum samtökin KSS sem er kristilegt félag fyrir krakka á aldrinum 15-20 ára. Fyrir þá sem vilja kynna sér starfsemi KSS betur er bent á að kíkja á heimasíðuna
www.kss.is. Eftir kynninguna var síðan lofgjörðarstund þar sem foringjarnir sungu fyrir stelpurnar. Þeim fannst þó gott að komast í bólið og ná vonandi góðri næturhvíld til að safna orku fyrir ævintýri morgundagsins.
Brennókeppnin er komin á siglandi ferð og það styttist í að í ljós komi hvernig undanúrslitaleikirnir raðast niður. Stelpurnar eru líka búnar að vera hörkuduglegar að taka þátt í þeim íþróttakeppnum sem boðið hefur verið uppá, en þar má til dæmis nefna húshlaup, stigahlaup, broskeppni, húllakeppni og þythokkímót.
Veðrið hefur ekki alveg verið að leika við okkur hingað til, en við látum nú ekki nokkra dropa aftra okkur í að hafa gaman saman J Við bíðum þó spenntar eftir sólinni sem við erum vissar um að eigi eftir að láta á sér kræla fyrr eða síðar!
Myndir frá deginum í gær og í dag má sjá
hér.
Annars biðjum við að heilsa héðan úr Hlíðinni fríðu.
Kv. Bára og Tinna Rós