Í morgun vöknuðu stúlkurnar klukkan níu og voru margar alveg til í að sofa aðeins lengur. En morgunmaturinn beið og nú var boðið upp á hafragraut sem hvarf eins og dögg fyrir sólu. Stúlkurnar kláruðu síðan að pakka og mátti sjá dugnað í verki og ótrúlega seiglu þegar stórum töskum og pokum var komið út á hlað. Þegar allur farangur var kominn út hófst síðasta morgunstundin í kvöldvökusalnum. Að henni lokinni hófst skemmtilegt uppboð á óskilamunum sem gekk hratt og vel fyrir sig. Við tóku svo útileikir fram að hádegismat sem voru grillaðar pylsur. Borðað var úti enda veður fallegt og bjart. Eftir hádegi var farið í hressilega gönguferð að Pokafossi sem er ein af fallegu náttúruperlunum í umhverfi Vindáshlíðar. Þegar heim var komið söfnuðumst við saman í kirkjunni okkar hér í Vindáshlíð. Þar var lokastund flokksins haldin með ljúfum söng og bæn þar sem við þökkuðum Guði fyrir Vindáshlíð, hver fyrir aðra og báðum fyrir heimferðinni.
Hópurinn sem hefur dvalið hér í Vindáshlíð hefur verið einstakur á margan hátt. Þetta eru glaðar stúlkur sem njóta alls sem fyrir þær er gert. Þær eru frábærir söngvarar, fimar í íþróttum, duglegar í leikjum og borða allt af bestu lyst. Þá hefur verið ánægjulegt að sjá hvað þær eru góðar hver við aðra. Ég þakka fyrir að hafa fengið að hafa þær hér í Vindáshlíð og vona að þær hafi átt ánægjulega og ógleymanlega daga hér á þessum yndislega stað.
Kveðja, Auður Pálsdóttir, forstöðukona