Þá er þriðji dagurinn hafinn hér hjá okkur í Hlíðinni fríðu og loksins er að gefast svigrúm til að láta heyra frá okkur.

Dagskráin er búin að vera mikil og stíf hjá stelpunum, sem eru 56 talsins hér núna. Mikil vinátta hefur skapast þeirra á milli og hlátur og gleði fyllt gangana frá fyrstu stundu. Hópurinn er mjög skemmtilegur og þægilegur og við foringjarnir fáum hreinlega ekki nóg af því að hrósa stelpunum fyrir hversu frábærar þær eru. Það leynist auðvitað smá prakkaraskapur í þeim undir niðri, en hann þarf nú að fá að fylgja með.

Á komudegi var staðurinn kynntur fyrir stelpunum og í kjölfarið fóru þær í ratleik um svæðið, þar sem þær fengu að kynna sér umhverfið betur sjálfar. Brennókeppnin og íþróttakeppnirnar hófust strax við komu og hefur verið góð þáttaka í hvoru tveggja alla dagana.

Á fyrstu kvöldvökunni var stelpunum safnað saman í íþróttahúsið þar sem þær fóru í hópeflisleiki og kynntust þannig enn betur. Eftir það fengum við okkur kvöldkaffi og hlustuðum á hugleiðingu um mikilvægi þess að þakka fyrir það sem við höfum og lesin var sagan um Þakkarkörfuna úr bókinni Við Guð erum vinir. Það voru þreyttar stelpur sem héldu út í læk að degi loknum til að busta tennur áður en þær skriðu upp í sínar kojur og bænakonurnar enduðu daginn með sínum stelpum.

Stuðið hélt svo áfram í gær. Eftir að hafa borðað morgunmat og hyllt fánann söfnuðust stelpurnar niður í sal á sinn fyrsta biblíulestur. Þar var þeim kennt að fletta upp í Biblíunni, við spjölluðum um Litlu Biblíuna og ræddum um af hverju Biblían væri svona merkileg.

Eftir brennókeppnir, keppni í stigahlaupi og vinabandagerð borðuðum við svo hádegismat og hlupum þar á eftir niður í réttirnar sem eru hér hinum megin við veginn. Þar var farið í svokallaðan réttarleik og svo labbað heim aftur. Þegar heim var komið biðu stelpnanna gómsætar kaffiveitingar svo þær náðu að hlaða batteríin fyrir seinni hluta dagsins. Eftir kaffi var haldin broskeppni, brennókeppnin hélt áfram og margar héldu áfram að þróa vinabanda-hæfileikana. Tvö herbergi sýndu svo atriði á kvöldvökunni og í hugleiðingunni var fjallað um fyrirgefninguna og það að Jesú hafi sagt að ekki ætti að fyrirgefa sjö sinnum, heldur 70 sinnum sjö.

Stelpurnar sofnuðu svo á skotstundu eftir að bænakonurnar yfirgáfu herbergin þeirra, enda dagarnir í Vindáshlíð þétt bókaðir og mikilvægt að fá góða hvíld þeirra á milli.

Í morgun hélt umræðan um Biblíuna svo áfram á biblíulestrinum. Stelpurnar fóru í leik þar sem þær pöruðu sig saman og skiptust á að leiða hina í blindni um salinn. Í kjölfarið var tekin umræða um það hvernig Biblían gæti leitt okkur í gegnum lífið og stelpurnar flettu upp Sálm.109:105 þar sem segir: Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum. Fyrir hádegismat var svo keppt í bæði brennó og í rúsínuspýtingum áður en stelpurnar hámuðu í sig gult og fallegt sólskinsskyr.

Nú rétt áðan héldu þær svo af stað að Pokafossi og þaðan er förinni heitið að öðrum fossi hér nálægt, Brúðarslæðu.

Þó vissulega sé ekkert Spánarveður hér í Kjósinni, þá hefur veðrið alls ekki verið slæmt. Það var smávegis væta á komudag en annars haldist alveg þurrt, algjörlega stillt og þokkalega hlýtt. Við kvörtum því ekkert yfir því.

Ótrúlegt að vikan sé þegar hálfnuð.

Margir foreldrar hafa látið vita af því að þeir sækji stelpurnar fyrr, í flestum tilfellum vegna Símamótsins sem er nú um helgina. Auðvitað vonumst við til að fá að hafa þær sem allra lengst, en mig langar að nota tækifærið og hvetja foreldra þeirra sem þurfa að fara fyrr að skutla stelpunum aftur uppeftir eftir að keppni lýkur á föstudaginn svo þær nái veislukvöldinu með okkur. Ykkur er þá velkomið að hinkra eftir þeim hér eða til dæmis nýta tækifærið í að skella sér í rómantískan göngutúr um svæðið eða bíltúr um Kjósina.

 

Við biðjum allar kærlega að heilsa heim.

Kv. Tinna Rós, forstöðukona.