Í dag vöknuðu stelpurnar upp við snjókorn um alla veggi og ganga. Þegar þær svo mættu í morgunmat tóku m.a. Elsa, Anna, Hans og Kristján, Ólafur snjókarl og nokkur tröll á móti þeim. Þeir sem þekkja til geta því getið sér til um að hér eru persónur úr myndinni Frosinn að ræða. Þema dagsins er Frosinn (eða „Frozen“) og höfðu þær allar gaman af þessum móttökum.
Morguninn var annars hefðbundin með góðum morgunmat, fánahyllingu, morgunstund þar sem við heyrðum söguna um það hversu oft við ættum að fyrirgefa og svo íþrótta og brennókeppnum.
Hádegismaturinn var mjög vinsæll, enda sjaldgæft að grjónagrautur, lifrarpylsa og rúgbrauð með smjöri standi ekki fyrir sínu.
Eftir hádegið var farið í æsispennandi flóttaleik sem að margar stelpur hafa beðið um og beðið eftir.
Kaffitíminn var á sínum stað með nýbökuðum kökum sem kláruðust hratt og vel og eftir kaffið fóru stelpurnar að undirbúa kvöldvökuna. Kvöldvakan verður HM kvöldvaka, enda snýst allt um HM þessa dagana. HM í Vindáshlíð er þó ólíkt fótboltanum í Brazilíu, enda um Hæfileikakeppni eða HlíðarMeistara að ræða. Stelpurnar notuðu tímann eftir kaffi til að undirbúa sín atriði og æfa sig vel.
Kvöldmaturinn var að sjálfsögðu góður og fengu stelpurnar kjúklingaleggi með dýrindis meðlæti. Eftir kvöldmat tók svo við frábært HM kvöld með mjög flottum atriðum frá stelpunum. Allir skemmtu sér vel og ljóst að hér hjá okkur eru mjög hæfileikaríkar stelpur.
Kvöldkaffið var m.a. í anda snjókornanna í Frozen en fyrir þær sem ekki vildu poppið (snjókornin) var boðið uppá ávexti og kex.
Þegar allt átti að vera komið í ró voru foringjarnir eldhressir og til í meira stuð og héldu því frábært náttfatapartý í matsalnum með tónlist, dansi, söng og skemmtilegheitum. Stelpurnar voru sko meira en til í að skemmta sér með þeim og var því stemningin í gangi fram yfir miðnætti. Það voru því mjög þreyttar en mjög glaðar og kátar stelpur sem fóru að sofa seint í gærkvöldi.