Í dag var veisludagur hjá okkur. Við byrjuðum hann reyndar hálftíma seinna en vanalegt er, þar sem stelpurnar fengu að sofa til 9:30 í morgun.
Við höfðum hefðbundin morgunmat og svo biblíulestur eftir það. Svo tók við að klára íþróttakeppnir og skemmtilegir leikir í íþróttahúsinu fram að hádegismat.
Við fengum þetta fína bleika skyr í hádegismatinn, ásamt brauði og eins og áður borðuðu allar stelpurnar mjög vel.
Eftir hádegi ákváðum við að nota góða veðrið sem við fengum í dag og fara í eina stutta gönguferð. Við fórum að fossunum, Pokafossi og Brúðarslæðu. Svo beið kaffitíminn eftir hópnum þegar þær komu til baka.
Eftir kaffið tók svo við undirbúningur fyrir veislukvöldið sjálft. Stelpurnar settu upp vinagang þar sem þær buðu upp á allskonar skemmtilegt í herbergjunum sínum, t.d. hárgreiðslustofu, snyrtistofu og þh. Og þannig gátu þær líka hjálpast að, að undirbúa sig fyrir kvöldið. Á sama tíma var hárgreiðslukeppni i gangi fyrir þær sem vildu taka þátt í henni með veislukvölds-hárgreiðslunum sínum. Nokkrar stelpur tóku þátt og höfðu mjög gaman af.
Veislukvöldmaturinn byrjaði svo á því að við fórum upp að fána, tókum hann niður og vefuðum svo „mjúka, dýra dúka“, á leiðinni til baka í matsalinn. Hvert herbergi fór svo í myndatöku með sinni bænakonu áður en Pizzan var borin á borð. Stelpurnar tóku allar hraustlega til matar síns og kláruðust um 60 stórar pizzur ofaní hópinn (sem telur rúmlega 80 stelpur).
Eftir matinn og verðlaunaafhendingu fyrir ýmsu íþróttaafrek og innanhússkeppni fóru margar í náttfötin aftur (þó það hefði ekki verið nein skylda) og svo beint í kvöldvökusalinn þar sem foringjarnir fóru á kostum í stórskemmtilegum leiksýningum. Það var mikið hlegið og allir höfðu mjög gaman af.
Eftir frábæra kvöldvöku var svo hugleiðing í setustofunni þar sem allar stelpurnar fengu ís og skemmtilegan félagsskap af hvor annarri svona síðasta kvöldið. Það var svo þreyttur hópur sem fór að sofa eftir miðnættið eftir frábæran veisludag og frábæra viku hér í Vindáshlíð.
Í dag, laugardag er svo heimfarardagur. Við munum hafa það gaman í dag, pakka niður dótinu okkar, fá okkur fínasta hádegismat og já, ekki má gleyma brennóleiknum þar sem brennómeistarar flokksins keppa við foringjana. Við munum svo fara upp í rútuna um kaffitímaleytið og ef allar áætlanir standast ættum við að koma inn á Holtaveg klukkan 16:00 í dag.
Ég veit að það eru pínu þreyttar, en alsælar og kátar stelpur sem kveðja Vindáshlið með söknuði en hlakka jafnframt til að fara heim og hitta fjölskyldur sínar og vini.
Við þökkum kærlega fyrir þennan frábæra hóp sem okkur var treyst fyrir þessa vikuna. Við höfum skemmt okkur vel og haft það mjög gott.
Með bestu kveðjum úr Vindáshlíð, Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona í 4. fl. 2014 🙂