Mánudagurinn 7. júlí
Við komum upp í Hlíð og spenntar stelpurnar fór í matsalinn að hlýða á reglur og almennar upplýsingar frá forstöðukonu og allir starfsmenn kynntu sig. Því næst fengu þær að vita í hvaða herbergi þær væru og hvaða bænakonu þær fengju sem er alltaf jafn spennandi. Bænakonurnar sýndu sínum stelpum hvaða herbergi þær væru í og fóru því næst með þær í göngu um staðinn og fóru yfir öryggisáætlanir.
Í hádegismat var bleik-Vindáshlíðar-ávaxta-súrmjólk sem féll vel í kramið og svo byrjaði hin formlega dagsskrá. Íþróttakeppnir voru settar af stað og brennókeppni vikunnar fór í gang. Opið var fyrir bolasölu í setustofunni og boðið upp á bönd til vinabandagerðar.
Seinni partinn fór að rigna og í nónhressingu var boðið upp á dýrindis súkkulaðiköku sem stelpunum þótti ekki leiðinlegt að gæða á meðan þær horfðu á skúrinn fyrir utan. Eftir kaffi fóru stelpurnar í herbergjunum Grenihlíð og Reynihlíð að undirbúa leiksýningar kvöldsins.
Stúlkurnar borðuðu kvöldmat kl. 18:30 og fengu pítu með öllu tilheyrandi. Frjáls tími var svo fram að kvöldvöku sem er í kvöldvökusalnum í nýbyggingunni. Sungnir voru hressir söngvar milli þess sem Greni- og Reynihlíð kitluðu hláturtaugarnar með fyndnum leikatriðum.
Í kvöldkaffi var boðið upp á ávexti og mjólkurkex áður en þær komu sér makindalega fyrir inni í setustofu þar sem sungnir voru rólegir söngvar og foringi var með hugleiðingu. Forstöðukonan endaði formlega dagskrá dagsins eins og alltaf með spjalli og þakkað var fyrir daginn. Kvöldsólin var svo yndisleg að stelpunar fengu að tannbursta í læknum og sumar fóru út í skóg að gera bænarjóður. Bænakonur báðu svo kvöldbænir inni á herbergjum með stelpunum sínum og fór yfir viðburði dagsins. Frábær fyrsti dagur í alla staði.
Hægt er að skoða fleiri myndir hér frá fyrsta degi.