Fimmtudagurinn 10. júlí

Í morgun fengu stúlkurnar útsof því þær fóru aðeins seinna að sofa en venjulega í gærkvöldi. Síðan var hátíðarmorgunverður í tilefni þess að þær væru nú formlega orðnar Hlíðarmeyjar eins og allar þær stúlkur og konur sem hafa sofið hér þrjár nætur.

Fánahyllingin var á sínum stað og síðan skiptu stúlkurnar sér í hópa eftir áhugasviði til að undirbúa guðsþjónustu í Hallgrímskirkju Vindáshlíðar eftir hádegismat. Boðið var uppá að fara í leiklistarhóp sem undirbjó leikatriði, bænahóp sem samdi bænir og flutti þær í kirkjunni, skreytingahóp sem skreytti kirkjuna og sönghóp sem æfði lög og flutti í kirkjunni eins og kirkjukór.

dagur4

Í hádegismat í dag var lasagna og að honum loknum var kirkjuklukkunum hringt til guðsþjónustu. Ein stúlkan átti afmæli í dag og fékk því að hringja kirkjuklukkunum. Stundin í kirkjunni var yndisleg og átti þátttaka stelpnanna mestan þátt í því. Sumarbúðirnar hér í Vindáshlíð búa svo vel að hafa þessa fallegu kirkju sem byggð var 1878 og var flutt í heilu lagi frá Saurbæ í Hvalfirði hingað uppí Hlíð 1957.

Í kaffitíma voru ávextir og kex og svo var frjáls tími fram að kvöldvöku og Barmahlíð, Hamrahlíð og Eskihlíð undirbjuggu leikatriði fyrir kvöldið.

Kvöldmatur var síðan klukkan hálf sjö og í matinn var grjónagrautur og lifrapylsa. Kvöldvakan byrjaði síðan klukkan hálf átta. Stelpurnar eru nú farnar að læra söngvana utanað og taka því vel undir svo húsið ómar af söng á kvöldvökum. Þær nutu þess svo að horfa á leikþættina og skelltu sér svo í kvöldkaffi í matsalnum. Í þetta sinn var kaka í kvöldkaffi og sunginn var afmælissöngur fyrir stelpuna sem átti afmæli í dag.

Eftir hugleiðingu og kvöldsönginn fengu stelpurnar að fara út í læk að bursta og þær sem vildu máttu fara út í skóg í bænarjóðrin sín. Bænakonur enduðu síðan daginn inni á herbergjum sinna stelpna og fóru yfir viðburði dagsins og báðu kvöldbænir. Svo á morgun er veisludagur!

Fleiri myndir frá degi fjögur má sjá hér.