Hressar og kátar stúlkur komu í Vindáshlíð í gær í blíðskaparveðri. Sólin brosti jafn mikið og stelpurnar svo allt var eins dásamlegt og helst var á kosið. Undirrituð er búin að panta að hafa þetta svona út vikuna 😉

Þegar búið var að raða öllum í herbergi (og allir fengu að vera í herbergi með þeim sem þær kusu helst) var kominn hádegisverður og svo var brunað upp að Sandfellstjörn þar sem sullað var og buslað á sundfötum í sólinni: Costa del Vindáshlíð!

Stelpurnar komu svo kátar heim og þá beið þeirra súkkulaðiterta sem gladdi margar. Eftir kaffið var svo farið í brennókeppni, íþróttakeppnir af ýmsu tagi, vinabönd hnýtt, aparólan prófuð og umhvefið allt skoðað hátt og lágt.

Eftir kvöldmatin var ákveðið að fara út í Fangaðu Fánann (Capture the flag) og eftir það var farið í annan eltingaleik þar sem við brugðum okkur í hlutverk frumkirkjunnar og vorum ofsótt af Rómverjum. Rómverjarnir reyndu að fanga þá kristnu og setja í fangelsi en einn af Rómverjunum var í raun kristinn en hafði engum sagt frá því. Hann gerði sitt besta til að frelsa kirstnu mennina úr fangelsinu og koma þeim í öruggt skjól.
Í lok leiksins voru fleiri kristnir í öruggu kapellunni en í fangelsi Rómverja svo Kristnu mennirnir/konurnar unnu leikinn!

Eftir ávextastund var svo helgistund þar sem við sungum ljúfa Vindáshlíðarsálma og Karítas foringi sagði söguna af Mörtu og Maríu.

Að því loknu fóru allar að tannbursta (sumar úti í læk) og gera sig reddý í háttinn. Þær fengu svo vísbendingar inn á herbergi um hver bænakonan þeirra væri og áttu svo að finna sína bænakonu. Það gekk eins og í sögu og fyrr en varði voru allar bænakonur búnar að eiga góða stund með sínum herbergjum og allar stúlkur sofnaðar vært.

Í morgun voru stelpurnar vaktar kl 9 og enginn til í að fara á fætur svona snemma (sjáum til með útsof seinna í vikunni) en allar voru komnar í morgunmatinn og svo beint upp að fánastöng í fánahyllingu. Eftir það fórum við upp í kirkjuna okkar og lærðum svolítið um Biblíuna og afhverju hún er ein merkilegasta bók í heimi – ef ekki sú merkilegasta. Svo lærðu stelpurnar að fletta upp í Biblíunni og fengu tækifæri til að spreyta sig á því á sínum herbergjum með bænakonunum sínum.

Núna eru allar úti að húlla, eða leika sér, brennókeppnin stendur sem hæst og kjúklingaréttur er að malla í eldhúsinu.

Við foringjarnir erum hæst ánægð með þessar stelpur, þvílíkar eðal stelpur svo skemmtilegar, hressar og kátar og til í allt. Þessi vika stefnir í að verða með skemmtilegustu vikum sumarsins!

Myndir eru væntanlegar seinna í dag.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona