Hér hafa yfir 40 mæðgur átt notalega stund í Vindáshlíðinni góðu.
Við vorum með prinsessu-þema þessa helgina. Gerðum okkur allar kórónur af ýmsu tagi og komumst að því að prinsessur eru bara venjulegt fólk og geta verið af öllum gerðum. Það sem gerir þær fyrst og fremst að prinsessum er hvernig fólk lítur á þær og hvernig þær líta á sig sjálfar. Við erum prinsessurnar hans Guðs sem skapaði okkur og er faðir okkar allra. Þar sem hann er konungur konunganna þá erum við allar prinsessur.
Við vorum svo heppnar að ein af mæðrunum í hópnum er ljósmyndari en það er hún Díana Júlíusdóttir. Hún mætti með myndavélina og tók gull fallegar myndir af okkur öllum. Myndirnar koma fljótlega inn á myndasíðu Vindáshlíðar sem má finna í gegnum þessa síðu.
Mæðgurnar hér hafa allar skemmt sér svo vel að helst vill enginn fara heim í dag og var því ákveðið að setja upp facebook – hóp fyrir okkur allar til að geta átt áfram samfélag, skipst á myndum og upplýsingum sem fólk vildi dreifa eftir helgina.
Hópinn má finna hér:
https://www.facebook.com/groups/278576462333622/
Hópurinn er lokaður og þær sem vilja komast í hann sækja um inngöngu og undirrituð hleypir þeim sem hér voru inn án tafar.
Ég þakka fyrir dásamlega helgi, hér hefur verið yndislegt að vera. Vert er að taka fram að starfsstúlkurnar hér uppfrá Steinunn, Maja, Emma, Ingibjörg, Ásgerður Birna, Guðfinna, Ester og hafa allar verið stórfenglegar og mikið af dýrindis kræsingum verið hér á borðum.
Ég vil persónulega þakka þeim fyrir frábært samstarf sem og þeim stjórnarkonum úr Vindáshlíð sem voru hér uppfrá.
Þvílík forréttindi að fá að verja þessari helgi með svona dásamlegum hóp af mæðgum og vinkonum. Ég er strax farin að hlakka til næsta mæðgnaflokks.
Kveðja
Anna Arnardóttir
Forstöðukona