Stúlkurnar voru vaktar klukkan átta á ljúfum nótum. Þær voru fljótar að koma í morgunmat þar sem í boði var kornflex, seríós, súrmjólk og viðeigandi meðlæti og tóku stelpurnar vel til matar síns. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan morgunstund. Þá var komið að brennókeppninni og á sama tíma var kraftakeppni sem fólst í að halda tveggja lítra flösku uppi í brjósthæð með beinum handleggjum eins lengi og mögulegt var. Í hádegismat voru bakaðir kartöflubátar, kjúklinganaggar og grænmeti. Það hvarf eins og dögg fyrir sólu. Eftir hádegi var farin mikil frægðarför á fjallið Sandfell sem er 384 m hátt og er hér við Vindáshlíð. ALLAR stúlkurnar í flokknum fóru upp á topp, stoltar og glaðar með afrekið. Veður var hlýtt og góð gola. Miðdegishressingin var því í seinna falli í dag en samt gafst tími fyrir brennóleiki og áframhald af kraftakeppninni. Í kvöldmatinn var kjúklingaréttur og grænmeti og var ánægjulegt að sjá hve vel var borðað. Margar stúlkur nýttu svo tímann eftir kvöldmat og léku sér úti áður en kvöldvakan hófst klukkan átta. Mikill söngur hljómaði úr kvöldvökusalnum og ljóst að stelpurnar eru fljótar að læra lögin. Eftir kvöldstund með hugleiðingu og hressingu í kjölfarið fóru stúlkurnar sem vildu út að læk til að þvo sér og bursta tennur. Það var mjög skemmtilegt. Deginum lauk svo með samverustund bænakvenna hjá sínum hópi. Klukkan var ekki orðin ellefu þegar rólegur andadráttur sofandi stúlkna barst úr hverju herbergi, enda yndislegur dagur í Vindáshlíð að kvöldi kominn og mikilvægt að safna kröftum fyrir morgundaginn.