68 kátar stelpur eru mættar í Óvissuflokk í Vindáshlíð. Þvílíkt stuð og þvílík gleði!
Starfsfólkið er búið að bíða spennt eftir þessum flokki og vikan fer svo sannarlega vel af stað. Í gær þegar búið að var að koma öllum fyrir í herbergjum með sínum vinkonum og þeim sem þær kusu að vera með og búið að púsla öðrum saman í nýja vinahópa var farið í hópleiki í íþróttahúsinu. Brennókeppnin fór svo af stað eftir hádegið og svo fengu allir dýrindis kökur og kryddbrauð í kaffinu. Mikið var um að stelpurnar væru úti að skoða svæðið og leika sér í aparólunni, aðrar æfðu atriði fyrir Vindáshlíð Got Talent sem fór fram í gærkvöldi. Þar stigu söngkonur á svið og sungu af lífi og sál og sungu sig inn í hjörtu áhorfenda. Tvær stelpur steppuðu fyrir okkur og dómnefndin sá ekkert nema glimmer og fegurð i þessu öllu saman. Sigurverarar keppninnar verða svo tilkynntir á veislukvöldi á föstudaginn.
Eftir að allir voru háttaðir og tilbúnir í svefn brutust út mikil læti og allir fóru af stað í næturleik þar sem keppt var í ýmsum þrautum – Þær sem frekar vildu fara að sofa máttu það að sjálfsögðu og nokkrar völdu þann kostinn. Rétt upp úr miðnætti var komin ró og allir farnir að sofa.
Þar sem við vöktum frameftir var ákveðið að sofa til kl 9:30 og ætlum við að halda þeirri reglu áfram út vikuna, stelpunum til mikillar gleði.
Þetta eru flottar stelpur sem eru hérna og virkilega gaman að vera með þeim.
Spennandi dagar framundan
Myndir birtast hér.
Kveðja
Anna Arnardóttir
Forstöðukona