Hér í Vindáshlíð er aldeilis stuð núna. Hér er fullur flokkur af stelpum, hvert rúm upptekið og allir bekkir þéttsetnir í matartímum. Stelpurnar eru kátar og ljúfar og gaman að vera með þeim.
Í gær var farið í íþróttahúsið í hópleiki til að hrista hópinn svolítið saman. Eftir það voru íþróttakeppnir, leikið í aparólunni, setið að spjalli í setustofunni, vinabönd hnýtt og frjáls leikur um svæðið.
Eftir kvöldmatinn var svo farið á kvöldvöku þar sem nokkur leikrit voru sýnd, farið í nokkra leiki, sungið og trallað.
Eftir kvöldkaffi var svo farið inn í setustofu þar sem allir sátu í rólegheitum, sungu saman, flutt var hugvekja um góða hirðinn og beðin kvöldbæn. Svo fóru stelpurnar að hátta og komu svo aftur inn í setustofu að leita að sinni bænakonu. Þær höfðu fengið þrjár staðreyndir um bænakonuna sína og svo þurftu þær að finna út hver það var sem þessar staðreyndir áttu við. Þetta gekk afar vel og eftir stutta stund voru allar bænakonurnar komnar inn í herbergin með stelpunum sínum í notalegt spjall fyrir svefninn.
Nóttin gekk mjög vel, allar sváfu vært og vöknuðu kátar í morgun þegar foringjar klæddir upp eins og bananar gengu um herbergin og sungu allar á fætur. Já þið lásuð rétt, bananar vöktu börnin – Í dag er nefninlega Bananadagur! Í dag verða foringjarnir í allan dag klæddir eins og bananar, syngja bananalög fyrir börnin og stefnan er að fara í bananaleiki – það verður spennandi að sjá hvernig þeir leikir eru.
Ljósmyndir frá vikunni birtast fljótlega á myndavefnum okkar og bætist í þær jafnt og þétt yfir vikuna.
Bestu kveðjur úr Vindáshlíðinni
Fáið ykkur banana og njótið dagsins 😉
Anna Arnardóttir
Forstöðukona.