Veðrið var með einhverja stæla við okkur í gær eins og við aðra á þessum landshluta. Við tókum því kósý-dag á þetta og horfðum á morgunbíó, lékum okkur svo inni við megnið af deginum.

Á Biblíulestri veltum við fyrir okkur prinsessum. Stelpurnar eru orðnar það stórar að fæstar þeirra vilja ennþá vera í prinsessuleik en við komumst að því að við erum í raun allar prinsessur því Guð er faðir okkar allra og hann er konungur konunganna. En þá var það spurningin hvað er það sem prinsessur eiga sameiginlegt. Við skoðuðum myndir af fullt af prinsessum af öllum stærðum og gerðum, allt frá pínulitlum prinsessum upp í aldraðar prinsessur og sáum að þegar þær eru ekki uppá klæddar með kórónur er engin leið að greina þær frá öðrum stelpum eða konum. Þær eru bara eins og við. Þær svitna, þær prumpa, þær borða, þeim líður vel, þeim líður illa, þær gráta og eru alveg eins og við. Það sem þær eiga allar sameiginlegt er hvernig fólk horfir á þær. Prinsessur leyfa engum að koma illa fram við sig. Þær vilja að fólk beri virðingu fyrir þeim og þær bera virðingu fyrir öðrum (flestar allavega). Þannig eigum við að vera prinsessur. Við leyfum engum að koma illa fram við okkur. Ef einhver vill lítilsvirða okkur eigum við ekki að hlusta á hann og snúa okkur til þeirra sem virða okkur og eru vinir í raun. Við eigum ekkert nema gott skilið – og það eiga líka stelpurnar í kringum okkur.
Eftir gott spjall um þetta kíktum við á nokkrar myndir fyrir og eftir að búið var að breyta þeim nóg til að gera þær fínar fyrir tískublöðin. Það var magnað að sjá hvernig falleg stúlka var tekin og sléttuð út, mjókkuð á alla kanta nema brjóstin stækkuð, allar hrukkur eða misfellur afmáðar, augun stækkuð, munnurinn gerður alveg samhverfur og fleira þar eftir götunum. Stelpurnar voru allar sammála því að fyrirmyndirnar voru fallegri og eðlilegri en eftirmyndirnar og að við ættum ekki að vera miða okkur við myndir sem við sjáum í blöðum og auglýsingum því það væri bara „fake“.

Út allan daginn voru svo stelpurnar að leika sér að því að veifa eins og prinsessur 😉

Eftir hádegið var farið út í íþróttahús þar sem haldnir voru furðu-ólympíu-leikarnir. Herbergin fengu sitt land sem þær áttu að vera fulltrúar fyrir, bjuggu til fána og kepptu svo í rúsínspýtingum, stígvélasparki og fleiru slíku.

Eftir kaffi var svo frjáls tími, keppt í ýmsum íþróttagreinum, setið við vinabandagerð, spjallað og leikið.

Eftir kvöldmatinn var svo boðið upp á fjórar stöðvar: Danskennslu, spilastöð, spjallstöð og bíó. Þetta varði í tvo tíma og allir undu vel við sitt. Eftir það var svo kvöldkaffi, hugleiðing og svo fengu stelpurnar góðan tíma inni á herbergjum með sínum bænakonum.

Í dag er veðrið aðeins skárra en ekki neitt sérstaklega gott. Við ætlum samt út í skemmtilegan leik eftir hádegið þar sem veðrið leikur eiginlega bara nokkuð góðan part í öllu saman. Svo er hæfileikakeppni og fleira spennandi á dagskránni í dag.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona