Dagurinn í dag hófst á blíðskaparveðri, sól og sumar er greinilega komið í Vindáshlíð. Þó létu nokkrir dropar sjá sig af og til yfir daginn en ekki stóð það yfir lengi og hafði engin áhrif á dagskrána eða gleðina sem ríkir hér.
Eftir mogunmat var fánahylling og biblíulestur svo var haldið í brennó og íþróttakeppnirnar húlla og stígvélaspark fóru af stað.
Í útiverunni eftir hádegisverð völdu stúlkurnar sér mismunandi stöðvar. Ein stöðin var dekurstöð, en þar settu þær á sig maska, fléttuðu sig, gerðu neglurnar fínar og nutu þess að vera saman. Önnur stöðin var leiklistarstöð en þar bjuggu þær til leikrit út frá biblíusögunni um Lazarus þegar Jesús reisti hann við frá dauðum. Þriðja stöðin var boot camp stöð en var sú stöð virkilega vel sótt og tóku stelpurnar vel á því. Upphitun boot camp stöðvarinnar var swing rock and roll hringdans en gekk hann mjög vel upp og eru stelpurnar einstaklega öflugir dansarar.
Í kaffitímanum var boðið upp á appelsínuköku og döðlubrauð. Eftir kaffið var haldið áfram með brennóið og íþróttirnar ásamt vinaböndum og sölu á bolum og kortum. Í kvöldmatnum fengu stúlkurnar hamborgara og tóku foringjar ekta Vindáshlíðardans fyrir stelpurnar við lagið Danza ka duro. Eftir mat var farið í ævintýraleikinn Harry Potter en á hinum ýmsu stöðum í skóginum voru að finna Madam Rolanda Hooch, Quidditch þjálfara, Hagrid, Garrick Ollivander og Harry Potter. Einnig voru í skóginum Lord Voldimort og vitsugur sem stúlkurnar þurftu að vara sig á.
Eftir leikinn var komið að kvöldkaffi og hugleiðingu þar sem þær fengu orð frá einum af foringjunum. Þá var komið að því að gera sig til fyrir háttinn en fengu þær sem vildu tannbursta sig í læknum að gera það. Þegar bænakonurnar áttu svo að koma inn að segja góða nótt heyrðust hróp og köll ,,hæ hó jibbý jey og jibbý jey, það er komið náttfatapartý!”
Það var mikið dansað og gleði og fjör réðu ríkjum, allskonar leikir og söngvar voru teknir og fengum við hann Hannes einbúa í heimsókn sem vildi ekkert meira en sykurmola! Einnig fengum við í heimsókn þá Harry Styles, Liam, Louis og Niall. En þeir höfðu týnt Zayn og voru villtir á Íslandi. Þeir höfðu hitt Hannes og kennt honum dansinn við lagið sitt ,,Best song ever” og voru svo almennilegir að hafa sýningu fyrir okkur.
Í endann gáfu þeir okkur ís og fóru stúlkurnar síðan glaðar og þreyttar í háttinn.
Kær kveðja
Hulda Guðlaugsdóttir
Forstöðukona