Í dag voru stúlkurnar vaktar klukkan 9. Dagurinn byrjaði eins og aðrir dagar í Vindáshlíð á morgunmat og síðan var fáninn hylltur og loks haldið á biblíulestu. Eftir biblíulestur hélt brennókeppnin áfram og tvær íþróttagreinar voru í boði, hælaspark og limbó. Í útiveru var farið í leik sem heitir biblíusmyglarar. Tilgangur leiksins er að stúlkurnar átti sig á því hversu mikilvægt það er að hafa trúfrelsi. Á biblíulestri höfðu þær heyrt um biblíuna og það að sumstaðar í heiminum væri ekki trúfrelsi og til þess að fólk gæti iðkað trú sína þyrfti það jafnvel að smygla biblíum inn í landið sitt eða sækja kirkjur sem eru einungis neðanjarðar. Leikurinn sjálfur snérist um það að finna litlar biblíur í skóginum í kringum Vindáshlíð og koma þeim í neðanjarðarkirkju. Leikurinn heppnaðist vel og allir skemmtu sér en lærðu eitthvað í leiðinni.
Í kaffinu var boðið upp á lummur og teköku sem vakti mikla lukku. Fram að kvöldmat kepptu stelpurnar í brennó og íþróttakeppnum, hnýttu vinabönd og undirbjuggu atriði fyrir kvöldvöku kvöldsins sem var hæfileikakeppni, Vindáshlíð got talent. Kvöldvakan gekk vel og var hvert atriði öðru glæsilegra.
Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu enduðu bænakonur daginn með stelpunum.
Það gengur allt vel hér í Vindáshlíð og hópurinn sem dvelur hér nú er virkilega skemmtilegur.
Kveðja Pálína forstöðukona