Fyrsti dagurinn í 1. flokk gekk vel. Flestar stelpurnar eru að koma í fyrsta sinn í Vindáshlíð. Eftir að stúlkurnar renndu í hlað var þeim skipt í herbergi og svo komu þær sér vel fyrir. Í hádegismat var grjónagrautur. Eftir hádegismat var farið í skemmtilegan ratleik þannig stelpurnar kynntust umhverfi Vindáshlíðar og hvor annari. Í kaffitímanum var boðið upp á kanillengjur og brauð með osti og skinku. Eftir kaffi hófst hin sívinsæla brennókeppni. En þá keppa herbergin sín á milli í brennó og við lok dvalar stendur eitt herbergi uppi sem brennómeistari. Eftir kaffi var einnig frjáls tími, boðið var upp á garn til að búa til vinabönd og nokkur herbergi undirbjuggu atriði fyrir kvöldvöku. Í kvöldmat voru tortillur með hakki og grænmeti. Eftir kvöldmat var kvöldvaka. Þar var mikið sungið og stelpurnar stjórnuðu hópleikjum. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og svo var hugleiðing þar sem María foringi talaði um gullnu regluna. Eftir hugleiðinguna fóru stelpurnar í náttföt og undirbjuggu sig fyrir svefninn. Dagurinn endaði á því að bænakonur komu inn á hvert herbergi og enduðu daginn með bænastelpunum sínum. Stúlkurnar voru fljótar að sofna enda þreyttar eftir viðburðarríkan dag.

 

 

Síminn okkar hefur valdið vandræðum í dag og ég biðst afsökunar á því ef þið hafið reynt að hringja en ekki náð sambandi. Þetta á að vera komið í lag en ef þið náið ekki samband við Vindáshlíð þá er hægt að hringja á Holtaveg og fá nánari upplýsingar.

 

Bestu kveðjur Pálína forstöðukona.