Við vöknuðum kl. 8:30 og úti var glampandi sól og ferskandi gola. Eftir morgunmat var morgunstund með Bibliulestri þar sem Auður talaði um söguna um vínviðinn og greinarnar og hversu mikilvægt sé að greinarnar hafi heilbrigð og góð tengsl við stofninn svo þær geti borið ríkulegan ávöxt. Þá æfðum við keðjusöng sem gekk mjög vel.
Eftir morgunstund hélt brennókeppnin áfram, íþróttakeppni á þremur stöðum og vinabandagerð í setustofunni. Í hádegismat voru tortilla-kökur sem stelpurnar settu sjálfar á það sem þær vildu. Í hádegismatnum voru foringjar með dansaatriði sem vakti lukku. Eftir frágang og uppvask báru stúlkurnar á sig sólarvörn því ferðinni var heitið að fossinum Brúðarslæðu. Þar óðu þær og skemmtu sér eins og þær væru í senn í sólarlandaferð og svaðilför. Eftirmiðdagshressing var kærkomin með heimabökuðu bakkelsi og var vel passað upp á að allir drykkju nóg. Eftir kaffitímann fóru sumar í sturtutími, aðrar í plankakeppni, sumar undirbjuggu kvöldvöku og enn aðrar fóru í brennó eða út að leika.
Í kvöldmat var mexíkósk kjúklingasúpa með osti og snakkflögum og var gaman að sjá hve stúlkurnar tóku vel til matar síns. Kvöldvakan var lífleg eins og fyrri kvöld með frumlegum skemmtiatriðum og öflum söng. Síðan var kvöldstund í setustofu þar sem stúlkurnar heyrðu sögu um sjö undur veraldar og áfram æfðum við okkur í keðjusöngnum. Margar stúlkur fóru síðan og burstuðu tennurnar úti í læk en það þykir svakamikið sport. Þegar svo von á bænakonum inn á herbergin brast á með dúndrandi náttfatapartíi sem stóð í um klukkutíma. Stelpurnar dönsuðu, sungu og foringjar skemmtu. Allar fengu þær svo frostpinna á meðan Auður las sögu í setustofunni. Það voru því sælar en þreyttar stúlkur sem fóru í háttinn eftir sólríkan dag og mikið fjör, og voru allar sofnaðar rétt um miðnætti.
Góðar kveðjur úr dásamlegri næturkyrrð í Vindáshlíð,
Auður forstöðukona