Annar flokkur sumarsins hófst í gær og telur hann rúmlega 80 stúlkur. Þær hafa flestar komið áður í Vindáshlíð en nokkrar eru að koma í fyrsta sinn. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum var farið í leik sem við köllum Amazing Race (ættum líklega að finna íslenskt nafn á leikinn). Í kaffinu var boðið upp á jógúrtköku. Eftir kaffi hófst svo hin sívinsæla brennókeppni, þar sem herbergin keppa sín á milli um titilinn „brennómeistarar Vindáshlíðar “. Eftir kaffi hófst einnig íþróttakeppnin, en á hverjum degi er keppt í mismunandi greinum, en þær eru mjög fjölbreyttar, má nefna stígvélaspark, húshlaup og broskeppni. Í kvöldmat var fiskur í raspi og ofnbakaðar kartöflur. Um 8 leytið var hringt á kvöldvöku, en hún var afskaplega ævintýraleg. Stelpurnar fóru í gegnum ævintrýrahús þar sem þær hittu margar skemmtilegar persónur, meðal annars Elsu úr Frozen og norn. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og hugleiðing. Loks máttu stúlkurnar bursta tennurnar úti í læk (auðvitað máttu þær bursta tennurnar inni ef þær vildu það frekar). Eftir að allar voru háttaðar var bænakonuleit. Þá þurfti hvert herbergi að finna sína bænakonu út frá þremur staðreyndum um hana. Stelpurnar voru fljótar að sofna og gekk næturvaktin nokkuð vel.
Símatími er á milli 11:30 og 12:00 og þá getið þið hringt og heyrt í mér.
Vil líka benda ykkur á að Vindáshlíð er á Instagram, við reynum að vera duglegar að setja efni þar inn svo þið getið fylgst með hvað við erum að gera.
Kv. Pálína forstöðukona