Við sváfum allar út í gærmorgun eftir hasar og náttfatapartí á þriðjudag. Það var glampandi sól fyrri partinn í gær og það var gott að byrja daginn vel úthvíldur. Eftir morgunmat máttu stelpurnar velja milli fjögurra hópa: sönghóps, leiklistarhóps, skreytingahóps og undirbúningshóps. Eftir hádegismat vorum við nefnilega með fallega stund í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og við notuðum morguninn til að undirbúa hana  Sönghópurinn æfði þrjú lög sem þau fluttu fyrir hinar stelpurnar í kirkjunni, leiklistarhópurinn setti saman skemmtilegan leikþátt um miskunnsama Samverjann, skreytingahópurinn skreytti kirkjuna gullfallega fyrir stundina og undirbúningshópurinn sá um dagskrá, skipulag og bökuðu kærleikskúlur (kókóskúlur) sem þær gáfu hinum stelpunum eftir kirkjuferðina. Eftir kaffitíma héldu íþrótta- og brennókeppnir áfram og margar fóru að gera vinabönd inni í setustofu eða fóru að leika sér úti á hoppukastala. Sóley foringi átti afmæli í dag og hún sá um kvöldvökuna í kvöld sem sló í gegn. Vindáshlíð Next Top Model fór fram í íþróttahúsinu þar sem herbergin unnu saman í hóp og bjuggu til “outfit” úr svörtum ruslapoka, prjónagarni og hlutum sem þær fundu úti í náttúrunni. Það er alveg ótrúlegt hvað stelpurnar hafa ríkt ímyndunarafl og hvað útkoman var flott! Eftir kvöldkaffi var hugleiðing í setustofunni þar sem við sungum saman og Aþena foringi hélt stutta hugvekju um það hvernig við erum allar ólíkar en jafn mikilvægar og dýrmætar í augum Guðs. Veðrið var enn gott og stelpunar fóru flestar út að tannbursta í læknum og svo fengu bænakonurnar að vera extra lengi inni hjá herbergjunum sínum áður en stelpurnar sofnuðu.

Ég minni á myndir úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709816576021

Svo mega foreldrar hafa samband við forstöðukonu í símatíma milli 11:30-12 alla daga. Síminn er 5667044.

Hlýjar kveðjur úr Vindáshlíð,
Kristín forstöðukona