Við áttum góðan dag í gær í Vindáshlíð. Sólin skein á okkur allan daginn og á milli dagskráliða sátum við margar úti í sólinni að gera fléttur í hvora aðra, spila og leika okkur á svæðinu. Brennókeppnin hélt áfram og einnig var keppt í jafnvægiskeppni og í því hver gæti haldið lengstum tóni á einum sérhljóða. Eins og þið getið ímyndað ykkur var mjög skrautlegt að labba fram hjá þeirri „íþrótta“keppni. Í útiveru eftir hádegismat gengu stelpur ásamt foringjum að réttum við Laxá hér í nágrenninu og fóru í leiki. Stelpurnar tóku með sér vatnsbrúsa og við bárum á þær sólarvörn svo enginn fékk sólsting né bruna í útiverunni. Eftir gómsætar kökur í kaffinu fóru fjögur herbergi að undirbúa kvöldvöku, leiki og leikrit, þar sem meðal annars var gert smá grín af foringjunum sem sló heldur betur í gegn hjá stórum sem smáum. Þegar kvöldkaffi og hugleiðingu í setustofunni var lokið fóru stelpurnar að græja sig fyrir svefninn. Þær voru tilbúnar að taka á móti bænakonum í herbergjunum sínum þegar þær heyrðu sungið og slegið í pottlok en foringjarnir höfðu þá undirbúið óvænt náttfatapartí. Það var dansað uppá borðum og stólum í matsalnum og svo voru ýmis atriði inni í setustofu sem stelpurnar tóku þátt í og skellihlóu. Kvöldið endaði með íspinna á meðan ég las eina sögu fyrir stelpurnar og bænakonur fylgdu síðan stelpunum sínum syngjandi inn í herbergi.
Stelpurnar sváfu allar vel í nótt. Annar góður dagur að baki hér í Hlíðinni.

Seinni partinn í dag koma fleiri myndir úr flokknum inn á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157710152393711

Ég sendi hlýjar kveðjur úr Vindáshlíð,
Kristín forstöðukona