Fréttir síðustu tveggja daga

Á miðvikudaginn var öll morgundagskrá eins og venjulega, morgunmatur – fánahylling – biblíulestur – frjálstími/brennó/íþróttir. Í hádegismat var skyr og brauð. Um tvö leytið var haldið í ævintýragöngu um skóginn okkar. Þar hittu stelpurnar nokkrar ævintýrapersónur sem kenndu þeim lag og dans. Í kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og eftir kaffi var frjáls tími, íþróttir og brennó. Frjálsi tíminn var einnig nýttur í að undirbúa kvöldvöku. Í kvöldmat var hakk og spaghettí. Á kvöldvöku fengu stelpurnar svo að sýna hæfileika sína. Stelpurnar sýndu mjög fjölbreytta hæfileika og var kvöldvakan stórskemmtileg. Eftir kvöldvöku var haldið í kvöldkaffi og loks hugleiðingu. Bænakonur enduðu daginn að venju í hverju herbergi.

Veisludagur rann upp bjartur og fagur. Framan af degi var dagskrá hefðbundin. Í hádegismat var blómkálssúpa og eftir hádegi fóru stelpurnar í leik sem heitir capture the scarf. Eins og nafnið gefur til kynna líkist leikurinn capture the flag, en fegna fánaleysis var notaður trefill. Eftir kaffi fóru allir í sín fínustu föt og á slaginu sex var hringt til veislukvölds. Teknar voru herbergjamyndir og síðan hófst veislukvöldmatur. Í veislukvöldmat voru pitsur og sátu bænakonur til borðs með herbergjunum sínum. Eftir kvöldmat var veislukvöldvaka í umsjón foringja. Þið getið séð nokkrar klippur þaðan á instagramminu okkar (@vindashlid). Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og hugleiðing. Síðan enduðu bænakonur daginn eins og alla aðra daga í Vindáshlíð. 

Núna eru stelpurnar að pakka niður og svo förum við allar niður í íþróttahús þar sem brennómeistarar flokksins keppa við foringjana. 

Rútan leggur af stað klukkan 3 í dag og við búumst við því að koma á Holtaveginn um það bil 40 mínútum seinna. Ef þið ætlið að sækja stelpurnar ykkar þá er gott að miða við það að koma ekki seinna en hálf 3. 

Bestu kveðjur

Pálína