Nú erum við vel á veg komnar með þriðja daginn í 5. flokki Vindáshlíðar 2020. Stúlkurnar 70 sem hér dvelja þessa vikuna eru því orðnar vel heimakærar hér í Hlíðinni fríðu og mikið fjör búið að svífa yfir vötnum síðustu daga.
Í gær var ákveðið að nýta sólina og sumarylinn og skelltum við okkur í góða göngu, alla leið að Sandfellstjörn. Þegar að tjörninni var komið var vindurinn aðeins að stríða okkur, en sólin stóð fyrir sínu. Sumar stelpurnar skelltu sér útí tjörnina og syntu þar aðeins, aðrar nutu stundarinnar á bakkanum. Eftir að hafa gætt okkur á kaffitímanum þar gengum við svo til baka í Vindáshlíð. Sandfellstjörn er hinumegin við Sandfellið sem situr hér fyrir ofan Vindáshlíð. Við gengum því hringinn í kringum fjallið í þessari ferð, eða alls um 6 kilómetra. Auk þessa voru í gær spilaðir leikir í brennó, tekið var þátt í íþróttakeppnum, og vinabönd voru hnýtt eins og enginn væri morgundagurinn. Á kvöldvökunni í gærkvöldi sýndu þrjú herbergi leikrit og að henni lokinni fengum við okkur kvöldkaffi og áttum rólega stund allar saman í setustofunni. Ævintýri dagsins voru þó heldur betur ekki búin þegar hérna kom við sögu. Stelpurnar voru allar háttaðar og komnar í herbergin sín að bíða eftir bænakonunni sinni til að enda daginn saman þegar foringjarnir þeyttust eftir göngunum með pottlok og ausur, syngjandi og tilkynntu náttfatapartý. Stelpurnar flykktust allar inní matsal þar sem var tekið danspartý við nokkur vel valin lög. Þar á eftir tók við skemmtidagskrá sem foringjarnir leiddu og Tóti tannálfur heiðraði okkur með nærveru sinni. Hann tékkaði á táfýlu, þreif nokkrar tær og gaf svo öllum ís.
Það voru vel þreyttar stúlkur sem lögðust til hvílu í gærkvöldi.
Í morgun hélt svo fjörið áfram og eftir morgunmat, fánahyllingu, biblíulestur, brennókeppnir, íþróttakeppnir, vinabandagerð og hádegismat voru Vindáshlíðarleikarnir haldnir hátíðlegir. Þar tóku herbergin þátt í margs konar þrautum og söfnuðu sér stigum. Nú hafa stelpurnar nýlokið við að gæða sér á nesti úti á túni, búið er að kveikja á hoppukastalanum og hlátursköllin óma hér eftir göngunum.
Við minnum foreldra á að skoða myndir úr flokknum á myndasíðunni okkar, hér. Myndir eru settar inn á hverjum degi. Einnig er hægt að fylgjast með okkur á Instagram þar sem við smellum inn myndum og myndböndum í „story“ reglulega yfir daginn.
Kær kveðja,
Tinna Rós, forstöðukona