Núna er unglingaflokkur sumarsins hálfnaður og nóg hefur verið um að vera.
Á fyrsta degi var hönnunarkeppni Vindáshlíðar í útiveru. Stelpurnar hönnuðu flík úr ruslapoka, síðan sýndu öll herbergin sína hönnun. Á kvöldvöku voru Vindáshlíðarleikar og stelpurnar kepptu í fjölbreyttum þrautum og leikjum. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og síðan héldu þær á hugleiðingu. Hugleiðingunni var þó fljótt frestað, því næst á dagskrá var eltingaleikurinn á flótta. Næsta klukkutímann eltu foringjarnir stelpurnar um skóginn. Eftir leikinn var hugleiðing, síðan háttuðu stelpurnar sig og fengu að vita hver yrði bænakonan þeirra. Þær þurftu þó að leita að bænakonum því þær höfðu allar falið sig. Eftir að öll herbergin höfðu fundið sína bænakonu enduðu bænakonurnar daginn með stelpunum. Langur og viðburðarríkur dagur og því sváfum við aðeins lengur í gær en venjulega…
Gærdagurinn var ekki síður viðburðarríkur. Þema dagsins var Eurovision. Í morgunmat voru kynntir til leiks nokkrir fyrrum Eurovision keppendur. Að öðru leyti var morgundagskrá hefðbundin; í Vindáshlíð byrjum við daginn á morgunmat, förum svo upp að fána og flöggum saman, síðan heldur forstöðukona biblíulestur. Eftir biblíulestur er frjáls tími, íþróttakeppnir og brennóleikir. Í hádegismat kusu stelpurnar um það hvort þær vildu frekar fara í gönguferð að Brúðarslæðu eða að Sandfellstjörn. Brúðarslæða hlaut yfirburðar kosningu svo þangað var farið í mjög góðu veðri. Brúðarslæða er foss í litlum læk. Þegar veður er gott eins og í gær er gaman að vaða í þessum læk, svo stelpurnar tóku með sér sundföt. Þegar stelpurnar komu til baka úr göngunni tóku forstöðukona og umsjónarforingi á móti þeim með vatnsslöngu, fötum og vatnssprautum og út braust mikill vatnsslagur. Stórskemmtilegt – þegar honum lauk heyrði ég eina stelpu segja „nú veit ég hvað var skemmtilegast í Vindáshlíð“. Eftir kaffi voru spilaðir brennóleikir og íþróttakeppnin hélt áfram. Stelpurnar fengu líka frjálsan tíma og undirbjuggu atriði fyrir kvöldvökuna. Yfirskrift kvöldvökunnar var Vindóvision og hvert herbergi dró úr hatti frægt Eurovision lag og átti að búa til skemmtiatriði út frá því. Kvöldvakan heppnaðist mjög vel og það var gaman að sjá hvernig stelpurnar komu með fjölbreytt atriði, sem voru þó öll byggð á einhverju Eurovision lagi. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og síðan hugleiðing. Bænakonur fóru inn á öll herbergin, en bænó var þó ekki langt því umsjónarforingi og undirrituð hlupu ganginn og slógu á potta og pönnur. Slíkt atferli í Vindáshlíð þýðir að náttfatapartý sé að hefjast. Náttfatapartýið heppnaðist stórvel og allir skemmtu sér.
Við höfum líka borðað mikið þessa tvo daga, á matseðlinum hefur meðal annars verið fiskur í raspi, tortillur, pasta, kjúklingur og auðvitað góðgæti í kaffitímum.
Ég vil benda ykkur á instagram reikning Vindáshlíðar (@vindashlid). Við reynum að muna eftir því að setja í story þegar við gerum eitthvað skemmtilegt svo þið getið fylgst með okkur.
Bestu kveðjur
Pálína forstöðukona