Það var dásamlegur 84 manna stúlknahópur sem mætti hingað í Hlíðina í dag í 1. flokk sumarsins. Það voru mjög margar að koma í fyrsta skiptið svo spennan var mikil. Eftir að búið var að kynna allar reglurnar okkar hér í Vindáshlíð þá var haldið inn í herbergin sem að stúlkurnar munu dvelja í næstu daga og komið sér vel fyrir ásamt því að kynnast bænakonunni sinni, en hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn.
Þegar búið var að koma sér fyrir var komið að hádegismat. Í hádegismatinn var kjúklingur og franskar. Eftir mat var komið að útiveru. Það ringdi aðeins á okkur hérna í dag en það gerði ekkert til, við fórum bara í pollagallana okkar og nutum okkar í rigningunni. Í útiveru var ratleikur þar sem stelpurnar fengu að kynnast svæðinu betur og leystu ýmsar þrautir. Í kaffinu var svo boðið upp á súkkulaðiköku og kryddbrauð. Eftir kaffi var síðan farið af stað með hina sívinsælu brennókeppni þar sem herbergin keppast sín á milli og mun eitt herbergi standa uppi sem brennómeistarar 1.flokks 2021. Einnig hófst íþróttakeppni og það var í boði að föndra í nýja og glæsilega föndurherberginu okkar hér í Vindáshlíð. Það var mjög vinsælt. Eins voru vinaböndin á sínum stað en þau eru alltaf vinsæl.
Í kvöldmat var grjónagrautur sem fékk góðar undirtektir og borðuðu stelpurnar vel og mikið af honum áður en haldið var á kvöldvöku. Á kvöldvöku voru sex herbergi með atriði og það var sko heldur betur hlegið og sungið. Mikil gleði var við völd. Seinast en ekki síst var komið að kvöldkaffi og svo loks hugleiðingu. Bænakonurnar enduðu svo daginn með hverju herbergi. Ekki leið að löngu þar til það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar enda vel þreyttar eftir frábæran dag.
Þetta er alveg dásamlegur stúlknahópur. Fjörugar, skemmtilegar og flottar og okkur hlakkar til að fá að kynnast þeim betur hér í 1. flokk.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story.
Við byrjum í dag að setja inn myndir á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/with/72157714736712698
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona