Þá eru allar stelpurnar komnar í draumalandið á öðrum degi þessa annars flokks í Vindáshlíð, sumarið 2021.

Þema dagsins í dag var Harry Potter, og eru stelpurnar búnar að fá að vera hluti af ævintýrinu í allan dag. Þegar þær mættu í morgunmat var búið að breyta matsalnum í Hogwarts og í hádegismatnum fengu þær allar að vita hvaða Harry Potter heimavist þær tilheyrðu og fylgdu svo sinni heimavist í Harry Potter leiknum eftir hádegi. Meira að segja biblíulestur dagsins, sem haldinn var í morgun, var með Harry Potter ívafi, sem og hugleiðingin í lok dags, en það er mjög áhugavert að skoða kristnar tengingar sem hægt er að finna í ævintýrunum. 

Hér í Vindáshlíð eru nú 82 stúlkur, svo sofið er í öllum rúmum á staðnum. Hópurinn er virkilega skemmtilegur og fjörugur, og stúlkurnar alltaf til í næsta ævintýri. Allt hefur gengið mjög vel frá því við mættum á svæðið í gærmorgunn. Strax hafa myndast góð tengsl milli stelpnanna og bænakvennana sem og annara foringja.

Ævintýrin eru sannarlega endalaus í Vindáshlíð.

Við minnum á að myndir koma inn daglega á Flickr síðuna okkar.

Engin lýsing til

Tinna Rós
Forstöðukona