Síðasti heili dagurinn, yndisleg dvöl í Hlíðinni fljótt að taka enda. Eftir morgunmat og biblíulestur dagsins fóru stelpurnar í íþróttahúsið að horfa á undan- & úrslitaleik í brennó.
Í hádegismat var pasta og eftir matinn fóru stelpurnar út í Týndi foringinn leik. Það var yndislegt að sjá og heyra stelpurnar hlaupa um mölina í glampandi sól. Í kaffinu fengu stelpurnar sjónvarpsköku og fóru svo að undirbúa vinagang. En á vinagangi labba stelpurnar og foringjar milli herbergja og bjóða upp á eitthvað fyrir hina, eins og t.d. hárgreiðslu, nudd, naglalakk og svo framvegis. Á meðan gera þær sig líka tilbúnar fyrir veislukvöld.
Veislukvöldið byrjaði á messu í kirkjunni og svo gerðum við vefa mjúka út á gras þar sem við fórum í myndatöku. Fullt af fallegum myndum voru teknar í sólinni og verða settar inn á myndasíðu Vindáshlíðar. Á veislukvöldinu fengu stelpurnar svo pizzu og veittar voru allskonar viðurkenningar fyrir hina ýmsu hluti og keppnir sem fóru fram í vikunni. Eftir matinn var foringjakvöldvaka þar sem foringjarnir sáu um atriðin og það var svo skemmtilegt að kvöldvakan lengdist töluvert miðað við upprunalegt plan. Stórkostlegt kvöld og stelpurnar skemmtu sér svo vel. Enduðum svo kvöldið á ís og hugleiðingu og tókum svo extra langa bænastund með bænakonu inni á herbergi.
-Marín Hrund forstöðukona