Á þriðjudaginn komu hingað í Vindáshlíð 82 stórskemmtilegar stúlkur í ævintýraflokk. Flestar hafa komið áður en einhverjar eru að koma í fyrsta skipti. Við byrjuðum að raða þeim í herbergi og sýna þeim svæðið. Eftir hádegi var farið í Amazing Race þar sem stúlkunum var skipt í lið eftir herbergjum. Eftir leikinn og fram að mat var síðan frjáls tími. Öll herbergin kepptu einn leik í brennó og það var broskeppni í setustofunni. Á kvöldvökunni var farið upp í íþróttahús í ýmsa skemmtilega leiki. Á hugleiðingarstundinni lærðum við um þakklæti og lásum saman söguna um þakkarkörfuna. Fyrir háttatímann fóru einhverjar stúlkur niður að læk að tannbursta sig og síðan hófst bænakonuleitin. Inná bænó hjálpuðust herbergin síðan til við að fylla þakkarkörfuna. Það færðist ró fljótt yfir hópinn enda þreyttar eftir langan og viðburðarríkan dag.
Morguninn eftir var Harry Potter dagur hér í Vindáshlíð. Búið var að skreyta matsalinn eftir heimavistum Hogwartsskóla og var herbergjunum skipt í heimavistir. Eftir fánahyllingu var Biblíulestur þar sem við fræddumst um Biblíuna og stelpurnar lærðu að fletta upp versum í Nýja testamentinu. Í útiverunni fórum við síðan í Harry Potter leik og þar hittu stelpurnar ýmsar persónur Harry Potter bókanna, eins og Hagrid, Dumbeldore, Hermoine, Oliwander, Voldemort og vitsugur. Heimavistirnar þurftu að vinna saman að því að leysa hinar ýmsu þrautir. Eftir leikinn fengum við jógúrtköku með kaffinu. Farið var í brennó og sippkeppni fram að kvöldmat og í kvöldmatnum fengum við Lasagne. Á kvöldvökunni var síðan farið út á fótboltavöll í skottuleik, en það rigndi svo mikið að við flúðum inní íþróttahús þar sem farið var í stórfiskaleik og skotbolta. Á hugleiðingarstundinni fengum við að heyra söguna af Stradivaríus þar sem boðskapurinn var að við erum allar einstakar. Um kvöldið fóru vel þreyttar en glaðar stelpur að sofa hér í Hlíðinni spenntar fyrir nýjum degi og fleiri ævintýrum.