Vindáshlíð 4. flokkur dagur 5, veisludagur.
Veisludagurinn okkar byrjaði á frekar rólegum nótum, þar sem flestar stelpurnar voru steinsofandi klukkan níu þegar að liðið úr Hogwarts mætti á ganginn til að vekja þær. Hér hafa svo ýmsar furðuverur verið á ferðinni í dag en ég held að þau hafi eitthvað villst frá Hogwarth og hingað í Kjósina.
Við héldum hefðbundinni dagskrá fyrir hádegi þar sem við fengum morgunmat, fórum og settum upp fánann okkar og svo á biblíulestur. Þar ræddum við um gullnu regluna ásamt ýmsu öðru og þær hlustuðu vel og fylgdust vel með. Eftir það var svo farið í íþróttahúsið þar sem undanúrslit og úrslitaleikur í Brennókeppninni var haldin og Brennómeistarar flokksins fundnir!
Í hádegismatinn var plokkfiskur og gaman að segja frá því að hópurinn kláraði allan plokkfiskinn og allir fóru vel saddir út í daginn.
Útiveran í dag byrjaði svo klukkan tvö, en þá fóru stelpurnar í Harry Potter leik hér á svæðinu og skemmtu sér flestar mjög vel við að leysa þrautir og sigra leikinn.
Eftir kaffið var svo opnað á vinaganginum, en þá fá stelpurnar að opna alls kyns ”stofur” í herberginu sínu, m.a. hárgreiðslustofu, snyrtistofu, naglastofu, nudd/dekur stofu og annað sem þeim dettur í hug þar sem þær geta dekrað við hverja aðra og gert sig fínar og tilbúnar fyrir veislukvöldið sem byrjar klukkan 18.
Veislukvöldvakan byrjaði í kirkjunni og þaðan fórum við og tókum niður fánann saman, svo voru vefaðir mjúkir dýrir dúkar að Vindáshlíðar-sið alla leið niður að matsal. Eftir það var ljósmyndastund þar sem allar stelpurnar (herbergin saman) fengu mynd af sér með bænakonunni/konunum sínum og svo var veislumaturinn, Vindáshlíðarpizzan borin fram. Hún er alltaf vinsæl og þær borðuðu mjög vel og svo var auðvitað verðlaunaafhendingin þar sem Brennómeistarar, íþróttameistarar, innanhúsmeistarar og fleiri fengu afhend viðurkenningarskjöl við mikinn fögnuð allra.
Framundan er svo kvöldvakan þar sem foringjarnir fara á kostum, kvöldkaffi og stutt hugleiðing þar sem við munum safnast saman í setustofunni og heyra mjög góða sögu með góðum boðskap.
Á morgun er heimferðadagurinn og þá verður nóg að gera, eins og alla aðra daga. Foringjarnir munu keppa við brennómeistarana og svo verður kveðjustundin sem er líklega ”erfiðasti” viðburðurinn alla vikuna. Það er nefnilega svo erfitt að hætta því sem er svona skemmtilegt og fara af þessum dásamlega stað sem Vindáshlíð er.
Í heildina hefur þetta verið mjög frábær hópur. Fullt af flottum stelpum sem eru duglegar að skemmta sér, taka þátt og hafa gaman.
Lúsmýið hrelldi okkur að vísu og margar munu þær koma heim frekar doppóttar með öll bitin sín. Þær hafa svosem ekki allar verið bitnar, en margar þó. Þetta er því miður eitthvað sem við ráðum ekki við, en við vinnum með afleiðingarnar með after-bite áburði, stundum kælipokum og annars því sem virkar hverju sinni. Sem betur fer hefur þetta truflað fæstar og frekar dregið þær saman þegar þær hópast í kringum þann foringja sem hefur ”brennipennann”, en það er batteríspenni sem að sendir hita á bitin og það virkar til að minnka kláðann. Klárlega vinsælasti penninn þessa vikuna 😊
Ég þakka þeim sem hafa fylgst með okkur þessa frábæru daga og mun ekki senda inn fleiri fréttir frá 4. flokki þetta sumarið.
Rútan kemur að Holtavegi 28 klukkan 15 á morgun. Sjáumst þá!
Kærar Hlíðarkveðjur, Jóhanna Steinsdóttir.