Í gær vöknuðu stelpurnar mjög hressar og kátar enda spenntar fyrir öðrum deginum sínum hér í Vindáshlíð. Í morgunmat var í boði að fá sé morgunkorn með mjólk eða súrmjólk en eins var hægt að fá hafragraut fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat er hefð fyrir því hér í Vindáshlíð að halda út að fánastöng en þar er fánahylling á hverjum morgni. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu. Í framhaldi af því hélt brennókeppnin áfram ásamt íþróttakeppnum, föndri, vinaarmböndum og frjálsum leik.
Í hádegismatinn var svo boðið upp á ljúffengt Lasagna áður en haldið var í útveru. Að þessu sinni fóru stelpurnar í réttirnar. Þar fórum við í eltingaleik þar sem að stelpurnar áttu að vera kindurnar á meðan að foringjarnir voru bændurnir að elta þær og draga þær í dylka eftir t.d. mismunandi litum á jökkum eða eitthvað álíka. Stelpunum fannst þetta mjög skemmtilegt, enda gaman að láta foringjana elta sig og láta eins og kindur í smá stund. Þegar heim var komið var komið að kaffitíma þar sem var í boði að fá jógúrtköku og kryddbrauð sem var heldur betur vinsælt. Eftir kaffi var svo enn og aftur frjáls tími þar sem var keppt í brennó og íþróttum eða haft það notalegt þær sem vildu.
Í kvöldmatinn voru Tortillas en svo tók kvöldvakan við þar sem þau herbergi sem áttu eftir að vera með atriði sýndu listir sýnar, en hvert og eitt herbergi fær að vera með atriði á kvöldvöku einu sinni í flokknum. Að lokinni gleðiríkri kvöldvöku þar sem var mikið sungið og hlegið að þá var komið að því að róa hópinn niður og haldið var í kvöldkaffi og loks hugleiðingu saman í setustofunni þar sem að lesin var saga um hugrekki og það að Jesú er alltaf með okkur í gegnum alla erfiðleika, bæði þegar að okkur líður vel og þegar okkur líður illa.
Eftir hugleiðingu var í boði að fara út í tannbustalæk og busta tennurnar fyrir þær sem vildu en það er einmitt gömul og góð hefð hér í Vindáshlíð. Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínu herbergi og fóru því þreyttar en glaðar stelpur að sofa hér í gærkvöldi.
Ég minni aftur instagrammið okkar (@vindashlid) og myndum frá flokknum á þessari slóð: Myndir
Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona