Þá er komið að síðasta heila deginum okkar hér í Vindáshlíð.
Við erum búin að eiga frábæra viku hér saman og ég á eftir að sakna þess að vera hérna með öllum þessum flottu stelpum.
Í gær fengum við Vindáshlíðar-pylsu-lasagne í kvöldmatinn. Þetta lagðist vel í stelpurnar þó fæstar hefðu fengið slíkan rétt áður. Stundum gerast bara ævintýrin í eldhúsinu líka, sérstaklega í ævintýraflokk. Eftir kvöldmat var svo útivera, enda komið nokkuð gott veður og við alveg tilbúin að eyða aðeins meiri tíma úti eftir marga blauta daga. Við fórum því með hópinn að Pokafossi þar sem foringjarnir stjórnuðu alls kyns hópleikjum.
Þær urðu svo hissa að koma inn og þá tóku á móti þeim frönskumælandi foringjar með yfirvaraskegg og svuntur. Tilefnið var spari-kvöldkaffi þar sem boðið var upp á dýrindis karmellu-bananaköku með rjóma. Þetta lagðist vel í hópinn og þær höfðu virkilega gaman af svona kaffihúsastemningu með fínu kvöldkaffi.
Í dag vöknuðum við bara á venjulegum tíma og fengum okkur morgunmat. Við náðum svo að fara og flagga fánanum saman og svo á biblíulestur þar sem við lærðum um vináttu, hvað er vinátta og að Jesú vill vera vinur okkar allra.
Við fengum svo þennan fína plokkfisk í hádegismatinn og sólin fór að skína á okkur á sama tíma. Við tókum því frábæra ákvörðun um að skella okkur í göngutúr að fossinum Brúðarslæðu og leika okkur í vatninu þar. Sólin kom með okkur og stelpurnar fengu að sulla og slaka á í fallegu náttúrunni okkar.
Kaffitíminn beið svo hópsins þegar þær komu til baka, jógúrtkaka, kex og epli.
Eftir kaffitímann eru svo allir að undirbúa veisludags hátíðarhöldin. Við munum byrja í kirkjunni okkar, svo ”vefum við mjúka og dýrindis dúka” alla leið niður að húsi og þar verða hópmyndatökur með hverju herbergi og bænakonu/konum herbergisins. Eftir þetta fjör verður veislukvöldmatur og veislukvöldvaka að hætti foringjanna. Þetta er ávallt skemmtilegasta kvöldvakan og vitað er að stelpurnar bíða spenntar.
Á morgun er svo heimferðardagur og rútan kemur á Holtavegi 28, Hús KFUM&K klukkan 15.
Takk fyrir samveruna, þetta er búin að vera frábær hópur og vonandi fáið þið öll einhverjar frábærar sögur með hverju barni, og vonandi hafa stelpurnar náð að búa til minningar sem munu lifa með þeim lengi.
Takk fyrir mig, Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona í 11. flokki.